Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Í dag er það líklega hvað hún er þægileg og fjölbreytt.
Ég elska hversu mikið hún hefur þróast síðasta áratuginn og tekur tillit til mismunandi líkamsvaxtar, ekki allir í sama boxinu.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Það er mjög stór spurning og erfitt val. Ég á alls konar fínar flíkur og kjóla en á meðgöngunni eru það klárlega síðu kjólarnir frá vinkonu minni henni Kim (SKIMS). Ofur þægilegir, flottir og klæða kúluna vel. Ég á þá í nokkrum litum.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Nei get ekki sagt það. Ég sé fyrir mér í hillingum að vera týpan sem ákveður dress kvöldið áður en ég enda einhvern veginn alltaf á hlaupum og hoppa bara í eitthvað, a.m.k. fyrir vinnuna dagsdaglega en ég eyði auðvitað smá tíma í að velja og máta fyrir sérstök tilefni.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Basic og þægilegur. Er stolt basic bitch!

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Nei ekkert þannig séð. Ég tek ekki miklum sveiflum í klæðaburði. Þó maður fylgi alveg tískunni eru engar dramatískar breytingar hjá mér og ég held að ég sé alltaf frekar samkvæm og sönn sjálfri mér.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
TikTok alveg klárlega! Elska hvað algorithminn er geggjaður og sýnir manni alltaf nákvæmlega það sem maður hefur áhuga á.
Núna fæ ég rosa mikið bumbu inspó sem er mjög skemmtilegt, enda búið að vera markmið á meðgöngunni að vera ekki bara í jogginggallanum. Mér finnst mjög gaman að klæða bumbuna.
Svo er Instagrammið hjá Molly Mae alltaf solid fyrir inspó – mér finnst ég tengja vel við hana bæði í stíl, vexti og útliti.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Nei í raun ekki. Ég á samt enga röndótta flík og hef aldrei fílað mig í því mynstri.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Það sem kemur fyrst upp í hugann er FENDI x SKIMS kjóllinn minn sem ég klæddist á þrítugsafmælinu. Sniðið, liturinn og mynstrið er alveg fullkomið fyrir mig og ég gat ekki annað en keypt hann þegar ég kom höndum á síðasta eintakið í London hér um árið.
Hann fékk síðan að hanga vel geymdur inni í skáp í heilt ár því ég tímdi aldrei að nota hann en þrítugsafmælið var svo hið fullkomna tilefni.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Vera þú sjálf og klæðast því sem lætur þér líða vel – það skín alltaf í gegn!
Hér má fylgjast með Birgittu Líf á samfélagsmiðlinum Instagram.