Frá þessu er greint á Fótbolti.net en þar segir að Haraldur, sem lék ekkert með Stjörnunni á síðustu leiktíð vegna meiðsla, sé nú að jafna sig eftir aðra aðgerð á mjöðm. Hinn 34 ára gamli Haraldur segist þó alls ekki vera hættur í fótbolta.
„Fótboltinn er það sem skemmtilegasta sem ég geri og hugmyndin með þessari aðgerð var alltaf að lengja ferilinn. Það hefur aldrei hvarflað að mér að hætta,“ segir Haraldur í viðtalinu á Fótbolti.net.
Haraldur er uppalinn hjá Val en hefur einnig spilað með Þrótti hér á landi. Þá hefur markvörðurinn spilað fyrir Sarpsborg 08, Fredrikstad FK, Strømmen IF og Lillestrøm í Noregi ásamt sænska félaginu Östersunds FK.
Einnig á hann að baki einn A-landsleik sem og 26 leiki fyrir yngri landslið Íslands.