Íslendingar töpuðu fyrir Slóvökum, 4-2, og eiga ekki lengur möguleika á að ná 2. sætinu í J-riðli undankeppninnar og komast þannig beint inn á EM.
Aron Einar kom inn á sem varamaður í stöðunni 4-1 á 61. mínútu. Landsliðfyrirliðinn hefur ekki spilað leik með félagsliði sínu, Al Arabi í Katar, síðan 12. maí og ekkert spilað nema nokkrar mínútur í 4-0 sigrinum á Liechtenstein í síðasta mánuði.
Lárusi Orra fannst sérstakt að Åge Hareide, þjálfari íslenska landsliðsins, skildi hafa sett Aron Einar inn á í leiknum í Bratislava í gær.
„Svo er annað og setur þetta svolítið samhengi allt saman, að þó hann sé úr Þorpinu, að maður hafi ekki spilað leik síðan held ég í apríl sé í landsliðshóp sem leikmaður og sé að koma inn á í keppnisleik það er mjög sérstakt og lýsir kannski stöðunni sem við erum í,“ sagði Lárus Orri þegar hann gerði upp leikinn með Kjartani Atla Kjartanssyni og Kára Árnasyni á Stöð 2 Sport í gær.
„Aron er það stórt nafn hjá okkur og það mikill leiðtogi fyrir liðið að það kemur smá ró með hans innkomu, þótt við sjáum það allir að hann er í engu standi til að spila þennan leik. Það sýnir bara þá stöðu sem við erum í.“
Íslenska liðið heldur nú til Portúgals þar sem það mætir heimamönnum í lokaleik sínum í undankeppni EM á sunnudaginn. Portúgalir hafa unnið alla níu leiki sína í riðlinum og eru öruggir með sigur í honum.
Íslendingar eru aftur á móti í 4. sæti riðilsins en eru að öllum líkindum á leið í umspil um sæti á EM í mars.
Innslagið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.