Flogið var með alls 180 einstaklinga, þar af 25 börn, til Venesúela í beinu flugi frá Íslandi í vikunni. Fólkið var allt umsækjendur um alþjóðlega vernd en hafði annaðhvort fengið synjun eða dregið sína umsókn til baka.
Eftir að fólkið kom til landsins greindi margt þeirra frá því að hafa verið yfirheyrt og komið fyrir í úrræði. Þau dvelji sex saman og fái ekki að yfirgefa úrræðið. Dómsmálaráðuneytið sagði í tilkynningu í gær að ráðuneytið væri með málið til skoðunar.
Í tilkynningu á vef dómsmálaráðuneytisins sagði í gær að Útlendingastofnun og embætti ríkislögreglustjóra, í samvinnu við Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu (Frontex), hafi í gær aðstoðað 180 venesúelska ríkisborgara við að snúa aftur heim til Venesúela „í sjálfviljugri heimför“ en í henni felst, meðal annars, að að fólk er styrkt til fararinnar og greitt fyrir flugfar.

„Flugið gekk vel og farþegarnir gengu heilu og höldnu frá borði og inn í flugstöð á miðvikudagskvöld að íslenskum tíma. Þar skildu leiðir Venesúelabúanna og starfsfólksins frá Frontex og Íslandi. Síðar bárust þær fregnir frá einstaklingum innan hópsins að fólkið hafi ekki fengið að fara frjálst ferða sinna.

Íslensk stjórnvöld og Frontex vinna nú að því að afla nánari upplýsinga um fólkið og stöðu þeirra og verða veittar nánari upplýsingar um leið og hægt er,“ sagði enn fremur í tilkynningunni.
Fleiri myndir af mótmælunum má sjá hér að neðan.

