Handbolti

Ís­lendinga­lið Mag­deburgar á toppinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ómar Ingi átti góðan leik að venju.
Ómar Ingi átti góðan leik að venju. Mario Hommes/Getty Images

Magdeburg vann góðan sigur í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Íslendingalið Melsungen vann einnig sinn leik en bæði lið eru í efstu þremur sætum deildarinnar. Ólafur Stefánsson byrjar á tapi í B-deildinni.

Magdeburg átti ekki í teljandi vandræðum með Eisenach, lokatölur 38-31. Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk og gaf eina stoðsendingu. Janus Daði Smárason skoraði eitt mark og gaf sex stoðsendingar. Felix Claar var markahæstur í liði Magdeburg með 12 mörk og þrjár stoðsendingar.

Melsungen lagði Balingen-Weilstetten með tveggja marka mun, lokatölur 26-24. Elvar Örn Jónsson skoraði fjögur mörk og gaf þrjár stoðsendingar í liði Melsungen. Arnar Freyr Arnarson skoraði tvö mörk. Oddur Gretarsson skoraði tvö mörk í liði Balingen en Daníel Þór Ingason komst ekki á blað.

Magdeburg er á toppnum með 21 stig, líkt og Füchse Berlin en Íslendingaliðið er með betri markatölu. Melsungen er svo með stigi minna í 3. sæti.

Í þýsku B-deildinni byrja lærisveinar Ólafs Stefánssonar hjá Aue á fimm marka tapi gegn TUS Vinnhorst í sannkölluð fallbaráttuslag, lokatölur 23-28. Sveinbjörn Pétursson varði 7 skot í marki Aue.

Aue er í botnsæti B-deildarinnar með 4 stig. TUS Vinnhorst var í botnsætinu fyrir leik dagsins en er nú í 17. sæti með fimm stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×