Lið Kolstad og Álaborgar voru á svipuðum slóðum í A-riðli fyrir leikinn í kvöld sem fram fór á heimavelli Kolstad í Noregi. Bæði lið fengu til sín stórstjörnur fyrir tímabilið. Sander Sagosen og Magnus Röd gengu til liðs við Kolstad en Álaborg nældi í danska landsliðsmarkvörðinn Niklas Landin.
Það var einmitt áðurnefndur Landin sem var maðurinn á bakvið stórsigur Álaborg í kvöld. Hann varði frábærlega í marki danska liðsins og alls 42% þeirra skota sem hann fékk á sig.
Álaborg náði mest sjö marka forskoti í fyrri hálfleik og leiddi 14-9 að honum loknum. Í síðari hálfleik jókst munurinn og liði Kolstad gekk illa að finna netmöskvana.
Munurinn varð mestur tólf mörk í síðari hálfleik en Álaborg fagnaði að lokum ellefu marka sigri. Lokatölur 29-18.
Sander Sagosen var markahæstur hjá Kolstad með fjögur mörk en Sigvaldi Björn skoraði tvö mörk úr fimm skotum. Mads Hangård skoraði sex mörk fyrir Álaborg og þeir Mikkel Hansen og hinn norski Kristian Björnsen skoruðu fimm mörk hvor.