„Við erum himinlifandi með þennan áfanga, við vitum að skortur á aðgengi að tungumálinu getur leitt af sér mismunun og til útilokunar á vinnumarkaði. Það er því fagnaðarefni að Vinnumálastofnun ætlar að hefja innleiðingarferli á íslenskukennslu lausninni. Sérstaklega þar sem verið er að kalla eftir stórátaki í íslenskukennslu eftir slæmar niðurstöður úr nýjustu Pisa könnuninni,“ segir Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Bara tala hjá Akademias.

Bara tala er í raun app sem inniheldur yfir 60 grunn námskeið í íslensku auk fagorðaforða fyrir flestar starfsstéttir. Námskeiðin innihalda yfir þúsund orð og setningar og segir í tilkynningu að samkvæmt rannsóknum hafi verið sýnt að með því að læra þúsund orð í erlendu tungumáli geti fólk skilið um 75 prósent allra samtala.
Lausnin er ætluð til þess að hjálpa fólki af erlendum uppruna við að aðlagast samfélaginu og aðstoða þau í hversdagslegum aðstæðum eins og að fara á heilsugæslu, panta sér sér kaffi, sækja barnið sitt á leikskóla en að auki koma námskeið inn jafnóðum eins og til dæmis um íslensku jólin, handboltann í janúar eða Júróvísjón næsta vor.
„Það hefur verið markmið okkar frá upphafi að öllum einstaklingum af erlendum uppruna verði veittur aðgangur að menntatækni lausninni Bara tala. Nú þegar eru tugir vinnustaða byrjaðir sjá mikinn árangur með tungumálakennslunni svo við höfum mikið til að gleðjast yfir. Umbreytingin á lífi starfsfólks sem kemur erlendis frá er svo stóri sigurinn,“ segir Guðmundur Arnar, framkvæmdastjóri Akademias sem dreifir og þjónustar Bara tala.
Hann segir að þvert á allar atvinnugreinar þá eigi erlent starfsfólk sem fær framgang í starfi það sameiginleg að hafa komist inn í tungumálið.
„Það er lykillinn að betri störfum, hærri launum og fleiri tækifærum. Fjölskyldur þeirra eiga þannig færi á að bæta lífsgæði sín á Íslandi því tungumálið er lykillinn að samfélaginu,” segir Guðmundur Arnar.
Fjallað var um forritið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í sumar. Þar kom fram að í því geti notendur spreytt sig á samtölum á íslensku í öruggu umhverfi. Forritið hlustar á notendur tala, æfir þá í framburði og veitir endurgjöf í rauntíma. Boðið er upp á grunnnámskeið og vinnusértækt efni fyrir fyrirtæki. Með Bara tala getur starfsfólk æft sig og lært íslensku hvar og hvenær sem er.