Ísland spilar við Kongó í Frederikshavn klukkan 19.30 í kvöld. Íslensku stelpurnar voru einu marki frá því að komast í milliriðilinn og hafa unnið alla þrjá leiki sína í Forsetabikarnum til þessa með meira en tíu mörkum að meðaltali í leik.
Nú geta okkar konur unnið bikar og það er langt síðan að það bættist í bikarsafn kvennalandsliðsins í handbolta.
Það eru nefnilega liðin meira en 59 ár síðan að íslenska kvennalandsliðið í handbolta vann síðast bikar á alþjóðlegu keppnismóti.
Ísland varð Norðurlandameistari í útihandknattleik kvenna sumarið 1964 en mótið var spilað á grasinu á Laugardalsvellinum. Pétur Bjarnason þjálfaði íslenska liðið.

Þetta var fyrsta alþjóðlega mótið sem var haldið á Íslandi og fjölmargir áhorfendur mættu á leikina sem fór fram í lok júní. Íslensku stelpurnar höfðu endað í öðru sæti á Norðurlandamótinu 1960 en ekki spilað landsleik síðan. Fimmtán leikmenn liðsins voru að spila sinn fyrsta landsleik sem gerði afrek þeirra enn athyglisverðara.
Íslensku stelpurnar stóðu sig líka frábærlega og byrjuðu á því að vinna 5-4 sigur á Svíum. Það var skrifað um það í blöðunum að það hafi verið haglél í upphafi leiks. Sigríður Sigurðardóttir skoraði sigurmarkið og var markahæst með þrjú mörk.

Íslenska liðið vann 14-5 sigur á Finnum í fyrri leik laugardagsins þar sem Sigríður var markahæst með sjö mörk en í seinni leiknum gerði liðið 8-8 jafntefli við Dani þar sem umrædd Sigríður skoraði fimm mörk.
Lokaleikur íslensku stelpnanna var á móti Norðmönnum þar sem íslenska liðið vann 9-7 eftir að jafa skorað tvö síðustu mörkin. Sigríður var enn á ný markhæst nú með fjögur mörk og eitt af þeim var lokamark leiksins þar sem hún komst inn í sendingu Norðmanna og innsiglaði sigurinn.
Sigríður Sigurðardóttir skoraði alls 19 af 36 mörkum íslenska liðsins í Norðurlandamótinu eða meiri en helming markanna. Hún var kosin Íþróttamaður ársins þetta ár og varð fyrsta konan til að hljóta þau verðlaun.
Verðlaunaafhendingin fór fram í kvöldverði í boði menntamálaráðherra Íslands þar sem Sigríður fyrirliði liðsins tók við bikarnum sem SAS-flugfélagið gaf til keppninnar.
