Handbolti

Díana Dögg markahæst í tapi gegn Dortmund

Siggeir Ævarsson skrifar
Díana Dögg í landsleik gegn Frökkum fyrr í vetur
Díana Dögg í landsleik gegn Frökkum fyrr í vetur Vísir/EPA

Landsliðskonan Díana Dögg Magnúsdóttir, fyrirliði BSV Sachsen Zwickau, dró vagninn í dag þegar liðið tapaði 25-31 gegn Dortmund í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Díana skoraði átta mörk í dag en það dugði skammt gegn sterku liði Dortmund. Lið BSV Sachsen Zwickau hefur átt erfitt uppdráttar í deildinni í vetur en liðið kom aftur upp í efstu deild vorið 2021 eftir að hafa varið síðustu 25 árum þar á undan utan hennar. 

Liðið situr í dag í 11. sæti af 14. liðum með þrjá sigra í tíu leikjum.

Annar Íslendingur og landsliðskona var einnig í eldlínunni í þýsku deildinni í dag. Sandra Erlingsdóttir og stöllur hennar í TuS Metzingen tóku á móti HSV Solingen-Gräfrath 76 og buðu upp á létta kennslustund í sóknarleik en lokatölur leiksins urðu 43-21 heimakonum í vil.

Sandra skoraði þrjú mörk í dag en TuS Metzingen er í 6. sæti deildarinnar með sex sigra í tíu leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×