Fótbolti

Loka dyrunum fyrir um­boðs­mönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland er stærsta fótboltastjarna Norðmanna í dag enda einn allra besti framherji heims.
Erling Haaland er stærsta fótboltastjarna Norðmanna í dag enda einn allra besti framherji heims. Getty/Sebastian Widmann

Norska knattspyrnusambandið hefur miklar áhyggjur af ásókn umboðsmanna í efnilegustu fótboltamenn þjóðarinnar og nú hefur verið tekin ákvörðun um að grípa til aðgerða til að vega á móti þróun síðustu ára.

Norðmenn eiga tvo af stærstu ungstirnum fótboltans síðasta áratuginn eða þá Martin Ødegaard hjá Arsenal og Erling Braut Haaland hjá Manchester City. Á sama tíma hafa Norðmenn einnig eignast mjög öflugar knattspyrnukonur eins og þær Ödu Hegerberg hjá Lyon og Caroline Graham Hansen hjá Barcelona.

Uppkoma þessara frábæru leikmanna hefur ekki minnkað áhuga umboðsmanna á ungu landsliðsfólki Norðmanna en nú ætlar norska sambandið að grípa í taumana. Þetta kemur fram á heimasíðu sambandsins.

Flestir þessara umboðsmanna eru að koma erlendis frá og með þá von um að finna næstu stjörnu norska fótboltans. Hingað til hafa umboðsmenn fengið aðgengi að æfingabúðum fjórtán til sextán ára krakka en þangað eru boðuð þau efnilegustu í norska fótboltanum hverju sinni.

Næstu æfingarbúðir eru á dagskránni í febrúar en þar mun norska sambandið loka dyrunum fyrir umboðsmönnum.

„Við höfum rætt þetta í nokkur ár og þetta var ekki auðveld ákvörðun,“ sagði Håkon Gröttland, yfirmaður fótboltaskóla norska sambandsins.

„Þessar æfingabúðir eru líka góður staður fyrir þjálfara krakkanna að hittast og bera saman bækur sínar. Það eru líka margir stoltir foreldrar sem vilja fylgjast með. Á sama tíma er nauðsynlegt að skapa ró og minnka ónæðið þegar við köllum saman okkar efnilegasta fólk,“ sagði Gröttland.

„Það skiptir líka máli í þessu að umboðsmönnum frá erlendum félögum hefur fjölgað mikið,“ sagði Gröttland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×