Á hinum Norðurlöndunum er það viðurkennt að stjórnmálafólk skiptir sér ekki af kjaradeilum. Það hefur því miður ekki verið leiðarstef hérlendis og nýverið kallaði verkalýðsforkólfur fyrir opinbera starfsmenn eftir þjóðsátt meðal annars um fríar tannlækningar til að hægt verði að ná kjarasamningum. Og lét þar að sjálfsögðu ekki staðar numið um hvernig ætti að haga ríkisfjármálum.
Það ættu nú flestir að átta sig á slík mál verða ekki útkljáð í kjarasamningum heldur á vettvangi Alþingis. Hvað yrði annars eftir fyrir þingmenn að sýsla þegar formaður Sameykis og aðrir í sambærilegum stöðum hafa tekið helstu ákvarðanir? Það gengur þvert á góðar lýðræðishefðir.
Í grunninn þegar rætt hefur verið um þjóðarsátt að undanförnu hlýtur meginstefið að vera að þjóðin sammælist um að binda enda á höfrungahlaupið svokallaða, sum sé víxlverkun launa og verðlags.
Seðlabankastjóri, reyndur háskólaprófessor, hefur sýnt elju við að benda landsmönnum á að brattar launahækkanir, sem ekki hefur verið innistæða fyrir, hafa leitt til meiri verðbólgu hér en tíðkast í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Það leiðir til hærri stýrivaxta - í því skyni að vinna bug á verðlagshækkunum - og þar með hærri afborgunum fyrir almenning af húsnæðislánum. Að sama skapi koma kauphækkanir, sem fuðra upp í verðbólgubáli, að litlum notum við rekstur heimilis.
Þegar litið er á kröfulista í grein formanns Sameykis, sem varð til við samruna Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og SRR stéttafélags í almannaþjónustu fyrir fimm árum, vaknar óneitanlega sú spurning hvort allir félagsmenn séu vinstri sinnaðir. Og ef svo er – sem er ósennilegt – er siðferðislega réttlætanlegt að starfsmannafélag opinberra starfsmanna krefjist aukinna umsvifa á vegum hins opinberra og hafi tök á að sveifla verkfallsvopninu verði þeim ekki að ósk sinni?
Afneitunarsinnar af þeim toga bregða fæti fyrir lífskjarasókn Íslendinga, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað.
Margt af því sem hann fullyrðir stenst ekki skoðun. Hann kallar til dæmis eftir „öflugum bankaskatti“ einmitt á sama tíma og heimili og fyrirtæki glíma við háa vaxtabyrði en allir ættu að vita að þær skattgreiðslur koma úr vasa lántaka.
Formaður Sameykis virðist ekki vera meðvitaður um að bankaskatturinn er nú þegar himinhár. Hann er þrisvar sinnum hærri en hvalrekaskattur sem Ítalir hugðust leggja á bankanna í sumar vegna verulegra stýrivaxtahækkana Seðlabanka Evrópu.
Íslenskir bankar greiddu um 70 til 80 prósent meira í heildarskatta borið saman við aðra norræna banka á árinu 2022. Á sama tíma þurfa íslensku bankarnir að sæta umtalsvert hærri eiginfjárkröfum en aðrir norrænir bankar. Þetta leiðir af sér að íslenskir bankar þurfa að viðhalda hærri vaxtamun en ella til að ná fram sambærilegri arðsemi og aðrir bankar.
Formaðurinn vill koma böndum á aukinn vaxtamun með því að slíta markaðslögmál úr sambandi með reglum á vaxtamun. Bankar eru ekki peningavél sem skila stórkostlegum hagnaði nær fyrirhafnarlaust, óháð regluverki og markaðsaðstæðum. Miðað við þá sviðsviðsmynd getur orðið óhagkvæmt og óskynsamlegt fyrir banka að lána fé í nægu mæli til að anna eftirspurn.
Bankar þurfa jú að hagnast með skynsamlegum hætti til að það sé akkur í að sinna starfseminni, þola útlánatap og fjárfesta í rekstrinum. Minni vilji banka til að lána væru slæm tíðindi fyrir fólk og fyrirtæki.
Það er mikilvægt að það sé fullur skilningur á að vaxandi framleiðni er forsenda kaupmáttarvaxtar. Þess vegna þurfum við að leita leiða til efla framleiðni. Það er meðal annars gert með því að leyfa hugverkaiðnaði að dafna.
Að sjálfsögðu kallar formaðurinn eftir aukinni skattheimtu á fleiri vígstöðvum. Engu að síður er skattar háir hérlendis.
Vandi íslenska hagkerfisins um þessar mundir er meðal annars að framleiðni stendur í stað. Þann vanda má einkum rekja til þess að erlent starfsfólk flykkist í störf með litla framleiðni eins og í ferðaþjónustu.
Það er mikilvægt að það sé fullur skilningur á að vaxandi framleiðni er forsenda kaupmáttarvaxtar. Það er meðal annars gert með því að leyfa hugverkaiðnaði að dafna. Rannsóknir sýna að háir skattar draga úr nýsköpun. Og háir skattar á fjármagnstekjur draga úr líkum á því að fjármagn færist í vaxandi, álitleg fyrirtæki.
Enn fremur dregur mikil skattheimta úr hagvexti. Þess vegna eru hugmyndir formanns Sameykis slæmar fyrir lífsgæðasókn Íslendinga.
Formaður Sameykis segir í grein sinni: „Launafólk verður að fá fullvissu um að kjarasamningar hverju sinni séu skref fram á við, bæði í beinhörðum launagreiðslum og öðrum þáttum sem hafa mikil áhrif á afkomu fólks og gangverk samfélagsins í heild.“
Ekki er allt gull sem glóir. Við samningaborðið hefur verkalýðsforystan oft samið með þeim hætti að í þeirra augum eru kjarasamningar „skref fram á við“ í „beinhörðum launagreiðslum“.
Vandinn er að samningarnir þeirra minna margt á þekkt dæmi úr heim frá heimspekingnum René Descarte. Frakkinn sagði frá beinni spýtu sem dýpt er í vatn. Þegar horft er á hana í vatninu virðist hún beygð en það er tálsýn. Skynvilla.
Kjarasamningar hér á landi eru oft sama marki brenndir, tálsýn, nema í þetta skipti er það rökvilla. Það er samið um verulegar launahækkanir. Nema þegar upp er staðið voru þær tálsýn því þær ollu verðbólgu. Launahækkanirnar urðu að engu en lán hækka og þar með eykst kostnaður heimila og fyrirtækja. Þar með er þó ekki öll sagan sögð því verðbólga hefur verulega slæm áhrif á efnahagslífið; minni fyrirsjáanleiki dregur til dæmis úr fjárfestingu fyrirtækja og þar með framleiðni þeirra og getu til að hækka laun þegar fram í sækir. Eyðileggingarmáttur slæmra kjarasamninga er mikill.
Formaður Sameykis virðist ekki vera meðvitaður um að bankaskatturinn er nú þegar himinhár. Hann er þrisvar sinnum hærri en hvalrekaskattur sem Ítalir hugðust leggja á bankanna í sumar vegna verulegra stýrivaxtahækkana Seðlabanka Evrópu.
Sáttin margumtalaða þarf nefnilega að vera sú að kjarasamningar verði okkur ekki fjötur um fót í þessu verðbólguumhverfi, og þar af leiðir að greiðslur af húsnæðislánum verði okkur ekki þungbærri en þörf krefur um árabil.
Við landsmenn verðum að hafa hugfast að það eru útflutningsgreinarnar sem ráða mestu um lífskjör hér á landi. Þær slá tóninn í kjaraviðræðum. Aðrir hópar verða að fylgja á eftir. Launahækkanir umfram svigrúm útflutningsgreina valda verðbólgu eða atvinnuleysi og grafa undan samkeppnishæfni þjóðarbúsins.
Þess vegna verðum við að gæta þess skattaumhverfi hér á landi sé eins hagfellt og kostur er fyrir fólk og fyrirtæki svo útflutningsgreinarnar geti blómstrað. Lífskjör okkar byggja á því. Því miður neita alltof margir að horfast í augu við það. Afneitunarsinnar af þeim toga bregða fæti fyrir lífskjarasókn Íslendinga, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað.
Höfundur er viðskiptablaðmaður á Innherja.