Elliði og félagar í landsliðinu ræddu við blaðamenn á hóteli landsliðsins í Köln í hádeginu. Menn tóku sér skiljanlega sinn tíma í að melta tapið gegn Þýskalandi í gærkvöld:
„Við tókum fund hérna og borðuðum svo saman, og svo fóru einhverjir að sofa, einhverjir í meðhöndlun og einhverjir að spjalla uppi á herbergjum. Bara eins og gengur að gerast.“
Óþolandi að hafa ekki fengið nein stig
Elliði segir erfitt að kyngja tapinu, og þeirri staðreynd að Ísland sé enn án stiga í milliriðlinum.
„Já, klárlega. Á sama tíma var þetta góð frammistaða í gær og ég er ánægður með að við spiluðum góðan leik. En það er óþolandi að hafa ekki fengið nein stig út úr þessu.
Í fyrsta lagi vildum við taka stig með okkur inn í milliriðilinn, og svo fannst mér við eiga að vinna í gær miðað við frammistöðu. Það er vel frústrerandi að vera ekki komnir með nein stig.“
Vonandi meiri læti í næstu leikjum
Þeir 150 stuðningsmenn Íslands sem voru í Lanxess-höllinni í gær máttu sín lítils gegn tæplega 20 þúsund Þjóðverjum en hvernig var að spila við þessar aðstæður?
„Maður tók svo sem ekki mikið eftir því að það væru tuttugu þúsund manns í höllinni. Það voru ekkert rosa mikil læti, ekki eins og maður hafði búist við. Mér fannst við ná líka að halda þeim ágætlega í skefjum með okkar frammistöðu. Það verða vonandi meiri læti í næstu leikjum,“ segir Elliði sem nú þarf að vera klár í leik við eitt allra besta landslið heims, Frakka, á morgun klukkan 14.30.
„Það leggst ótrúlega vel í mig. Við erum svo sem ekkert búnir að fara yfir þá en ef við höldum áfram því sama og í gær þá munum við gefa þeim góðan leik, og vonandi dettur hann fyrir okkur.“
Næsti leikur Íslands á EM er gegn Frakklandi á morgun klukkan 14:30 að íslenskum tíma. Öflugt teymi Vísis og Stöðvar 2 er í Þýskalandi og fjallar um mótið í máli og myndum.