Handbolti

Óskar Bjarni: Gamla góða tuggan

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals.
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Valur vann í kvöld stórsigur á Fram í Úlfarsárdal í fyrsta leik 15. umferðar Olís-deildar karla, 28-36 lokatölur.

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var að vonum ánægður með sitt lið í kvöld en liðið hefur unnið báða leiki sína á nýju ári.

„Margt gott í þessu. Mér fannst góð hraðaupphlaup í fyrri hálfleik og skoruðum mikið, mikið úr seinni bylgju fannst mér og bara margt jákvætt í þessum leik. Við erum búnir að spila tvo leiki og vinna þá báða, bara svona mjatla þetta áfram.“

Óskar Bjarni náði þó ekki að anda rólega í leiknum fyrr en þegar um stundarfjórðungur var eftir að leiknum og hans menn komnir með örugga forystu.

„Mér fannst við aldrei ná að slíta þá almennilega frá okkur fyrr en við komumst í sex marka forystu, annars var þetta þrjú til fjögur mörk. Mér fannst þetta meira okkar leikur í dag. Framararnir með frábæran mannskap og eru með Kjartan og Þorstein Gauta o.fl. í meiðslum. Þeir eru með eitt besta sóknarlið í deildinni að mínu mati og frábæran þjálfara. Þannig að ég er bara ánægður að hafa komið og unnið,“ sagði Óskar Bjarni.

Valur mætir serbneska liðinu RK Metaloplastika á sunnudaginn í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarsins. Óskar Bjarni segir serbneska liðið vera sterkara en þau lið sem Valur hefur mætt í keppninni hingað til og er ánægður að fá að byrja á heimavelli og vonast eftir því að Valsmenn fjölmenni á völlinn.

„Það leggst bara mjög vel í okkur þetta verkefni. Við erum bara strax á morgun með fund og förum yfir þá, kíkjum á og sýnum strákunum klippur af þeim og auglýsum þetta upp, fáum smá af fólki í húsið. Þetta er gott lið. Þetta er mun meiri breidd en hin liðin sem við höfum mætt. Þeir eru með tvo fína leikmenn í hverri stöðu og þyngd og er ekta svona serbneskt lið. Að byrja heim er líka rosa mikilvægt og að ná að fylla kofann, gamla góða tuggan. Það er bara mjög gaman að skipta um, þetta er mikið af leikjum í febrúar þannig að það er bara skemmtilegt.“

Óskar Bjarni lítur á álagið í febrúar jákvæðum augum og segir það henta sínu liði.

„Þetta eru einhverjir sjö leikir og allt á fullu og það er líka bara skemmtilegast að spila, þeir eru dálítið vanir því strákarnir. Ég þarf bara að passa, Viktor og Ísak eru dottnir út og Róbert Aron var veikur í dag, þannig að við þurfum bara að halda okkur ferskum og heilum þá erum við mjög góðir,“ sagði Óskar Bjarni að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×