Handbolti

Aftur­elding gerði góða ferð til Eyja

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sylvía Björt Blöndal skoraði þrjú mörk fyrir Aftureldingu í dag.
Sylvía Björt Blöndal skoraði þrjú mörk fyrir Aftureldingu í dag. Vísir/Hulda Margrét

Afturelding gerði heldur betur góða ferð til Vestmannaeyja í dag því liðið vann sigur á ÍBV í Olís-deild kvenna í handknattleik.

Fyrir leikinn í dag var ÍBV í 4. sæti Olís-deildarinnar en langt var upp í lið Hauka í 3. sæti en ÍR var í 5. sætinu með jafnmörg stig og Eyjakonur. Afturelding var hins vegar í 6. sæti átta stigum þar á eftir.

Eyjakonur byrjuðu betur í dag og komust í 8-3. Mosfellingar gáfust hins vegar ekki upp þrátt fyrir erfiða byrjun. Aftureldingu tókst smátt og smátt að minnka muninn og voru búnar að ná forystunni fyrir hálfleik. Staðan þá 15-14 gestunum í vil. Saga Sif Gísladóttir var að verja vel í marki Aftureldingar en hún var með 45% vörslu í leiknum.

Í síðari hálfleik var Afturelding skrefinu á undan. Liðið náði í nokkur skipti þriggja marka forskoti en ÍBV var þó aldrei langt undan án þess þó að ná að jafna metin.

Afturelding komst í 26-24 þegar fjórar mínútur voru eftir en ÍBV minnkaði muninn í eitt mark skömmu síðar. Eyjakonur fengu síðan þrjár sóknir til að jafna metin en tókst ekki. Afturelding fagnaði því góðum eins marks sigri, lokatölur 26-25.

Eins og áður segir átti Saga Sif Gísladóttir stórleik í marki Aftureldingar. Hún varði 16 skot eða 45% þeirra skota sem hún fékk á sig. Hildur Lilja Jónsdóttir og Ragnhildur Hjartardóttir voru markahæstar með 5 mörk hvor hjá Aftureldingu. 

Hjá ÍBV skoraði Sara Dröfn Ríkharðsdóttir sömuleiðis 5 mörk líkt og Sunna Jónsdóttir. Marta Wawrzykowska varði 10 skot í markinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×