Jóhann Berg Guðmundsson kom inn af varamannabekk Burnley er liðið mátti þola 0-2 tap gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Burnley er nú án sigurs í síðustu tíu leikjum liðsins, en seinasti sigur Burnley kom gegn Fulham á útivelli þann 23. desember á síðasta ári.
Þrátt fyrir að hafa verið miklu meira með boltann í dag tókst Burnley-mönnum ekki að skora í leik dagsins. Gestunum tókst hins vegar að skora í tvígang og var það Justin Kluivert sem kom liðinu yfir strax á 13. mínútu eftir stoðsendingu frá Lewis Cook.
Antoine Semenyo tvöfaldaði svo forystu gestanna með marki á 88. mínútu, einnig eftir stoðsendingu frá Lewis Cook.
Jóhann Berg kom inn af varamannabekk Burnley á síðustu mínútu venjulegs leiktíma, en tókst ekki að setja mark sitt á leikinn.
Eftir tapið situr Burnley í næst neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 13 stig eftir 27 leiki, níu stigum frá öruggu sæti. Bournemouth situr hins vegar í 13.sæti með 31 stig.