Innlent

Matthías Johannes­sen er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Matthías Johanenssen tók við stöðu ritstjóra Morgunblaðsins árið 1959, þegar hann var 29 ára gamall.
Matthías Johanenssen tók við stöðu ritstjóra Morgunblaðsins árið 1959, þegar hann var 29 ára gamall. Bókmenntaborgin

Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og skáld, er látinn. Hann andaðist á líknardeild Landspítalans í Kópavogi í gær, 94 ára að aldri.

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í morgun, en Matthías ritstýrði blaðinu í rúm fjörutíu ár, frá árinu 1959 til 2000.

Matthías fæddist 3. janúar 1930 og var sonur hjónanna Haraldar Johannessen, aðalféhirðis Landsbankans, og Önnu Jóhannesdóttur Johannessen húsmóður.

Hann lauk kandídatsprófi frá Háskóla Íslands í íslenskum fræðum og hóf fyrst störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu samhliða námi árið 1951 þegar hann var 21 árs að aldri. Hann var svo ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins við hlið Valtýs Stefánssonar, Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Bjarnasonar árið 1959, þá einungis 29 ára að aldri. Hann gegndi á ritstjóraferli sínum einnig stöðu ritstjóra við hlið Eyjólfs Konráðs Jónssonar og Styrmis Gunnarssonar.

Auk þess að starfa sem ritstjóri skrifaði Matthías einnig tugi bóka, ljóðabækur, leikrit og viðtalsbækur. Hann hlaut fjölda verðlauna á ferli sínum meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina Kjarval árið 2005.

Þá var Matthías einnig virkur í félagsmálum og sat meðal annars í stjórn Hins ís­lenska þjóðvina­fé­lags, í mennta­málaráði, í bók­menntaráði Al­menna bóka­fé­lags­ins, stjórn Krabba­meins­fé­lags­ins og Hjarta­vernd­ar, auk þess að gegna trúnaðar­störf­um fyrir Sjálf­stæðis­flokkinn.

Matthías giftist Hönnu Ingólfsdóttur árið 1953 og eignuðust þau tvo syni, þá Harald, lögfræðing og fyrrverandi ríkislögreglustjóra, og Ingólf, lækni og lektor við Edinborgarháskóla. Hanna lést árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×