Tindastóll tapaði á fimmtudagskvöldið á heimavelli sínum á Sauðárkróki fyrir liði Þórs frá Þorlákshöfn. Íslandsmeistararnir eru í 7. sæti Subway-deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir og ekki öruggir með sæti í úrslitakeppninni.
Í þættinum Subway Körfuboltakvöld fóru þeir Stefán Árni Pálsson, Teitur Örlygsson og Ómar Örn Sævarsson yfir frammistöðu Jacob Calloway í síðustu leikjum Stólanna. Calloway kom til liðsins eftir áramótin en í kjölfarið bættu Stólarnir við öðrum Bandaríkjamanni og þurfa því Calloway og Keyshawn Woods að deila með sér mínútum inni á vellinum þar sem aðeins annar þeirra má spila á sama tíma.
„Jacob Calloway spilar tólf mínútur í leiknum í gær. Hann skorar þrjú stig, hann tekur tvö fráköst, einn tapaður bolti og þeir eru mínus tólf þegar hann er inni á vellinum. Af hverju er hann að spila tólf mínútur?“ spurði Stefán Árni þá Ómar og Teit í gær.
„Af því þeir eru búnir að eyða svo ógeðslega miklum pening í hann að þeim finnst þeir vera knúnir til að nota hann eða reyna að koma honum inn í leikinn. Þetta er náttúrulega bara algjör þvæla,“ sagði Ómar Örn og Stefán Árni bætti við að þegar Calloway væri inn á mætti Woods ekki vera inná og þær mínútur væri ekki að fara vel.
Í kjölfarið var síðan farið yfir tölfræði þær mínútur sem Calloway spilar og sést þar svart á hvítu hvernig Stólunum gengur þegar Calloway er inni á vellinum og Woods á bekknum.
„Hann er ansi dýr vatnsberi Ómar,“ sagði Teitur í gamansömum tón.
Alla umræðu þeirra félaga má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.