Fótbolti

Leik­menn Fener­bache slógust við á­horf­endur sem réðust inn á völlinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Frá óeirðunum í kvöld.
Frá óeirðunum í kvöld. Skjáskot

Slagsmál brutust út að loknum leik Trabzonspor og Fenerbache í tyrknesku úrvalsdeildinni í dag. Leikmenn Fenerbache slógust við stuðningsmenn heimaliðsins sem hlupu inn á völlinn.

Leikurinn í dag var toppslagur enda Fenerbache í öðru sæti deildarinnar en Trabzaospor í því þriðja. Reyndar munaði tæpum þrjátíu stigum á liðunum, en Galatasaray og Fenerbache eru tvö efst í tyrknesku deildinni og hafa haft mikla yfirburði á tímabilinu.

Leikurinn var góð skemmtun. Brasilíumaðurinn Fred kom Fenerbache í 2-0 í fyrri hálfleik en heimamönnum tókst að jafna metin í þeim síðari.

Þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma skoraði Michy Batshuayi sigurmark Fenerbache og tryggði liðinu 3-2 sigur.

Eftir leikinn fögnuðu leikmenn Fenerbache vel og lengi inni á miðjum vellinum fyrir framan fullan völl stuðningsmanna Trabzonspor. Þetta fór ekki vel í stuðningsmennina sem réðust inn á völlinn þar sem leikmenn Fenerbache tóku á móti þeim með spörkum og hnefahöggum.

Gæslumenn þustu að en virtust lítið ráða við aðstæður og stóðu slagsmálin yfir í nokkra stund áður en leikmennirnir komu sér inn í klefa.

Það verður forvitnilegt að sjá hver framvinda þessa máls verður en knattspyrnuáhugamenn í Tyrklandi eru þekktir fyrir mikla ástríðu eins og við Íslendingar höfum kynnst í tengslum við landsleiki Íslands og Tyrklands. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×