Veður

Þokka­lega bjart veður víðast hvar

Atli Ísleifsson skrifar
Frost verður á bilinu núll til níu stig, en hiti eitt til fjögur stig yfir hádaginn um landið sunnanvert.
Frost verður á bilinu núll til níu stig, en hiti eitt til fjögur stig yfir hádaginn um landið sunnanvert. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir hægum vindi um allt land í dag og þokkalega björtu veðri víðast hvar. Má því reikna með að það verði þurrt um mest allt land.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að það verði breytileg átt, þrír til átta metrar á sekúndu, en austan fimm til tíu syðst. Það muni svo þykkna upp smám saman vestantil og sums staðar verði þar dálítil él í kvöld.

Frost verður á bilinu núll til níu stig, en hiti eitt til fjögur stig yfir hádaginn um landið sunnanvert.

„Í nótt og á morgun verður skýjað um landið vestanvert og líkur á að úrkomubakki geti gefið ofurlítinn snjó á því svæði, en bjart og fallegt veður í öðrum landshlutum.“

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Hæg breytileg átt og skýjað með köflum, en skýjað og líkur á snjókomu um landið vestanvert. Frost víða 0 til 6 stig, en frostlaust með suður- og vesturströndinni.

Á föstudag: Norðaustanátt, 5-13 m/s. Dálítil él, en víða bjartviðri sunnan- og vestanlands. Hiti breytist lítið

Á laugardag: Norðaustan 8-18 m/s, hvassast við suðausturströndina. Dálítil él norðan- og austantil en léttskýjað um landið suðvestanvert. Svipað hitastig áfram.

Á sunnudag: Norðanátt og dálítil él á norðanverðu landinu, en bjartviðri að mestu sunnan heiða. Fremur kalt í veðri.

Á mánudag og þriðjudag: Útlit fyrir breytilega átt með éljum á víð og dreif. Frost um mest allt land, síst suðvestantil yfir daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×