Fjölskylda Nenigar tilkynnti að hennar væri saknað 28. febrúar síðastliðinn en daginn áður hafði hún hringt í 911 og greint frá því að hún væri týnd í eyðimörkinni. Sá sem svaraði aðstoðaði Nenigar við að finna hnitin að staðsetningu hennar í símanum en sendi símtalið svo áfram á lögregluna í Kaliforníu.
Ekkert virðist hins vegar hafa verið gert með hnitin og lögreglan í Kaliforníu leitað eftir lýsingum Nenigar.
Það var ekki fyrr en rúmri viku eftir að Nenigar hringdi í 911 og að fjölskylda hennar tilkynnti að hennar væri saknað sem lögreglan í Arizona fékk símtalsupptökuna inn á sitt borð og fann bifreið Nenigar skammt frá þeim stað sem hnitin bentu á.
Nenigar var þá farin af vettvangi. Lík hennar fannst, eins og fyrr segir, í síðustu viku undir tré í um það bil 24 kílómetra fjarlægð frá bifreiðinni.
„Hún þurfti ekki að deyja,“ segir Marissa Nenigar, systir Amöndu, sem átti að minnsta kosti tvær dætur.
Fjölskylda hennar hyggst leita réttar síns.