Að öðrum ólöstuðum hefur Hallgrímur verið besti leikmaður KA á Akureyri síðustu ár. Hann hafði nýlega jafnað sig á ökklameiðslum þegar hann fann fyrir óþægindum á mánudag í síðustu viku.
„Ég veiktist eitthvað aðeins en fór á æfingu og ætlaði að spila við Þór á þriðjudeginum. En var svo allt í einu kominn með 39 stiga hita og á miðvikudeginum er ég að drepast í kringum brjóstið,“ segir Hallgrímur í samtali við Stöð 2.
Hann var þá greindur með bólgur í gollurhúsi og fær lyf við því. Það hjálpaði lítið og hann var aðframkominn þegar hann leitaði aftur á sjúkrahús á fimmtudegi.
„Þá greindist ég með inflúensu og lungnabólu í báðum lungum. Þessi fyrstu dagar voru algjör viðbjóður. Ég grenjaði bara af sársauka sko þessar tvær nætur,“
„Ég fór í einangrun því ég var með inflúensu svo ég var þar í tæpa viku,“ segir Hallgrímur.
Fótboltinn fór í aftursætið
Hallgrímur var þá á sýklalyfjum í æð í sjö daga og eftir það tók við tíu daga kúrs af töflum. Þá bætti ekki andlegt ástand Hallgríms, samhliða líkamlegu einkennum, að þurfa að dúsa í einangrun.
„Þetta var mjög erfitt. Ég held ég hafi grátið tvisvar eða þrisvar inni á spítalanum, maður er ævintýralega lítill í sér þegar maður er svona lasinn. Síðan var stutt í mót, ég var nýkominn eftir ökklameiðslin en það fer allt í vaskinn. Þetta var bara mikill tilfinningarússibani,“
„Maður áttaði sig samt á því þegar maður var hvað veikastur. Þá hugsaði maður minna um fótboltann og hvað heilsan skiptir mestu máli,“ segir Hallgrímur.
Hallgrímur hefur varla misst úr leik allan sinn feril en ljóst að þeir verða þónokkrir framan af þessari leiktíð. Líkast til er tæplega mánuður í að hann geti farið að skokka og þá þarf hann að vinna upp fyrri styrk áður en hann getur snúið aftur á völlinn.
„Ég verð örugglega einhvern tíma að koma mér í form. Ég fann það líka bara þegar ég byrjaði að labba almennilega af einhverju viti í gær, verandi búinn að vera fastur í herbergi í sjö daga, þá fann ég að vöðvarnir eru aðeins búnir að rýrna. Þannig að þetta verður einhver vinna,“ segir Hallgrímur.
Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.