Galatasaray og Fenerbache áttust við í vægast sagt óvenjulegum úrslitaleik í tyrkneska ofurbikarnum í gær. Liðsmenn Fenerbache mótmæltu því sem þeim þykir vera ósanngjörn meðferð með því að mæta með unglingalið sitt til leiks og gengu svo af velli eftir að liðin höfðu aðeins leikið í eina mínútu.
Mauro Icardi hafði þá þegar komið Galatasaray í forystu með marki eftir aðeins nokkrar sekúndur.
CRAZY SCENES IN THE TURKISH SUPERCUP FINAL 🤯
— Football on TNT Sports (@footballontnt) April 7, 2024
- Fenerbahce field their reserve team in protest against the Turkish FA's handling of recent brawl with Trabzonspor fans 🥅
- Mauro Icardi scores for Galatasaray one minute into match ⚽️
-Fenerbahce reserves walk off pitch in… pic.twitter.com/BFG3XOSadG
Mikið hefur gustað um Fenerbache undanfarna daga, sérstaklega eftir að leikmenn liðsins slógust við stuðningsmenn Trabzonspor sem ruddust inn á völlinn eftir sigur Fenerbache á dögunum. Félagið ákvað í kjölfarið að greiða atkvæði um það hvort liðið yrði dregið úr tyrknesku deildarkeppninni, en stjórnarmeðlimir kusu gegn þeirri tillögu.
Félagið hafði óskað eftir því að úrslitaleik gærkvöldsins yrði frestað vegna þess að Fenerbache mætir Olympiakos í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar næstkomandi fimmtudag, en því var hafnað af tyrkneska knattspyrnusambandinu.
Þá hafði félagið einnig óskað eftir því að fá erlendan dómara til að dæma úrslitaleikinn gegn Galatasaray þar sem forráðamönnum Fenerbache þykir halla á sitt lið þegar tyrkneskir dómarar dæma leiki liðsins.
Í mótmælaskyni ákvað Fenerbache að mæta með varaliðið sitt til leiks í úrslitaleikinn í gær og að leikmenn myndu ganga af velli eftir eina mínútu. Leikmenn sneru ekki aftur á völlinn og Galatasaray var því dæmdur 3-0 sigur. Galatasaray er því tyrkneskur bikarmeistari.