Fótbolti

KSÍ ræður fyrrum lands­liðs­konu til starfa á skrif­stofunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Ómarsdóttir fagnar hér einu marka sinna fyrir Liverpool en hún varð tvisvar sinnum enskur meistari með félaginu.
Katrín Ómarsdóttir fagnar hér einu marka sinna fyrir Liverpool en hún varð tvisvar sinnum enskur meistari með félaginu. Getty/Andrew Powell/

Knattspyrnusamband Íslands hefur ráðið Katrínu Ómarsdóttur tímabundið til starfa á skrifstofu sambandsins.

Katrín hefur tekið að sér starf verkefnastjóra og mun hún hefja formlega störf 1. júní.

KSÍ segir frá nýja starfsmanni sínum á heimasíðu sinni og þar er líka farið yfir þau verkefni sem bíða Katrínar. Hún mun hafa umsjón með innleiðingu nýs móta- og upplýsingakerfis (Comet - Competition Management Expert System) fyrir KSÍ og aðildarfélög ásamt samhliða innleiðingu á nýrri vefsíðu KSÍ. 

Katrín mun hafa samskipti við þjónustuaðila (Comet) og notendur (fulltrúa KSÍ og fulltrúa aðildarfélaga). Hún mun sjá um fræðslu til notenda og þjálfun í notkun Comet sem og veita notendum stuðning að innleiðingu lokinni.

Katrín lék á sínum tíma 69 A-landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim tíu mörk. Hún lék alls níutíu sinnum fyrir öll landslið Íslands. Katrín var í tveimur fyrstu EM-hópum Íslands á EM 2009 og EM 2013.

Katrín er líka eina íslenska knattspyrnukonan sem hefur orðið Englandsmeistari með Liverpool en hún vann enska titilinn með félaginu bæði 2013 og 2015. Katrín varð einnig Íslandsmeistari með KR á sínum tíma.

Katrín hefur lokið BSc í viðskiptafræði frá háskólanum í Berkeley, Kaliforníu, og lýkur námi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun hjá Endurmenntun Háskóla Íslands í vor, auk þess að vera með KSÍ C gráðu í knattspyrnuþjálfun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×