Undanfarnar vikur hefur verið hávær orðrómur um að hinn 33 ára gamli Rúnar Már sé að ganga til liðs við ÍA. Það fékkst endanlega staðfest í kvöld, föstudag. Samningur hans á Akranesi gildir til 2026.
„Rúnar Már mun koma til með að styrkja lið ÍA verulega og er mikil tilhlökkun að fá að fylgjast með honum næstu ár,“ segir í tilkynningu ÍA.
Rúnar Már á að baki 32 A-landsleiki og hefur skorað í þeim tvö mörk. Hann hefur spilað fyrir Tindastól, HK, Ými og Val hér á landi. Þá hefur hann spilað sem atvinnumaður í Svíþjóð, Sviss, Rúmeníu og Kasakstan. Varð hann landsmeistari bæði í Rúmeníu og Kasakstan.
Skagamenn eru með þrjú stig að loknum tveimur umferðum í Bestu deildinni og mæta Fylki á sunnudaginn kemur, 21. apríl.