Aðstoðarmaðurinn hefur aðeins verið nefndur Jian G. Hann vinnur fyrir Maximilian Krah, leiðtoga AfD, sem er í framboði fyrir Evrópuþingskosningar sem fara fram í júní. Maðurinn er sakaður um að veita kínversku leyniþjónustunni upplýsingar um samningaviðræður og ákvarðanir Evrópuþingsins og að njósna um kínverska stjórnarandstæðinga í Þýskalandi.
„Hann er sakaður um sérstaklega alvarlegt brot um að vinna fyrir erlenda leyniþjónustu,“ sögðu alríkissaksóknarar í yfirlýsingu.
Sá grunaði var handtekinn í Dresden í gær. Húsleit var gerð í íbúð hans þar og í Brussel. Sama dag voru þrír aðrir þýskir ríkisborgarar handteknir og sakaðir um að því að koma tækni sem gæti verið notuð í hernaðarlegum tilgangi í hendur kínverskra stjórnvalda.
Talsmaður AfD lýsti fréttunum sem „óhugnanlegum“ við Reuters-fréttastofuna. Flokkurinn hafi ekki frekari upplýsingar um málið.
Nancy Faeser, innanríkisráðherra Þýskalands, sagði málið háalvarlegt og ef rétt reyndist að einhver hafi njósnað um Evrópuþingið fyrir Kína væri það „árás innan frá á evrópsk lýðræði“, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Kínverska utanríkisráðuneytið vísaði fregnunum á bug og sagði þær tilraun til þess að koma óorði á Kína og halda landinu niðri.