„Fínt kvöld, spiluðum vel, stjórnuðum leiknum. Þeir voru svolítið hættulegir stundum í skyndisóknum en fyrir utan það fannst mér við með full tök á þessum leik og hefði hæglega getað verið stærri sigur“ sagði Gylfi fljótlega eftir leik.
Gylfi gaf tvær stoðsendingar í dag og stýrði sóknarleik Vals að miklu leyti. Frábær frammistaða af hans hálfu, en hann segist eiga meira inni.
„Jájá, fjórði leikurinn sem ég byrja núna, á einhverjum þremur árum, það er bara gott að vera byrjaður að spila tvo leiki í viku. Spilum, endurheimtum milli leikja og komum okkur svo aftur í gang fyrir næsta leik. Það mun taka smá tíma fyrir mig að komast í mitt besta stand en mér finnst ég vera aðeins að nálgast það.“
Valur reyndi fyrir sér nýtt leikskipulag í dag. Spiluðu með þrjá miðverði, Birkir Már og Jónatan Ingi í vængbakvörðum. Aron Jóhannsson, Kristinn Freyr og Gylfi Sigurðsson á miðjunni. Þrír menn með gæði og alvöru flæði, létu boltann ganga vel milli sín og ógnuðu mikið. Hvernig fannst Gylfa það kerfi ganga?
„Mjög vel. Hentaði betur á móti Stjörnunni þegar við vorum manni færri í seinni hálfleik. Virkaði vel í dag, skipulagið og uppleggið hjá þjálfaranum mjög gott. Munurinn var að við nýttum færin okkar í dag. Skoruðum snemma sem hjálpar mikið. En jú, ég held að öllum hafi liðið vel [í þessu kerfi]. Gott að vera með tvö kerfi sem við getum spilað.“
Gylfi er auðvitað uppalinn FH-ingur, þó einhverjir vilji meina annað. Hann sagði vissulega einhverjar tilfinningar hafa blússað upp af því tilefni en einbeitingin var alltaf á að sækja sigurinn í kvöld.
„Skrítið að spila á móti liði sem þú varst í þegar þú varst ungur, í einhver tíu ár. En fyrir utan það var allur fókus bara á að komast áfram í keppninni og einbeita okkur að því að vera í hattinum í næstu umferð.“
Valur er komið áfram í 16-liða úrslit. Á Gylfi sér einhvern óskamótherja þar?
„Nei svosem ekki, það fer bara eftir hvernig úrslitin í þessari umferð. Í bikarkeppnum verður að vinna bestu liðin til að vinna keppnina.“