Valskonur kæfðu leikinn strax í upphafi og gáfu heimakonum í raun aldrei séns. Þær skoruðu tíu af fyrstu 13 mörkum leiksins og leiddu því 10-3 um fyrri hálfleik miðjan. Fyrir hlé skoraði Valur tvöfaldan markafjölda á við ÍBV, staðan 18-9 í hálfleik.
Eftirleikurinn því nokkuð auðveldur og Valskonur jóku við forskotið eftir hlé. Munurinn að endingu ellefu mörk, 34-23 úrslit leiksins, Val í vil.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir fór mikinn í Valsliðinu og skoraði ellefu mörk úr tólf tilraunum, þar af þrjú af vítalínunni. Hún lagði þrjú upp að auki. Elín Rósa Magnúsdóttir skroraði fimm og lagði upp þrjú, og þá skoruðu Ásdís Þóra Ágústsdóttir og Thea Imani Sturludóttir fjögur hvor. Ásdís gaf einnig sex stoðsendingar.
Hafdís Renötudóttir varði 14 skot, með markvörslu upp á tæplega 50 prósent í marki Vals.
Hjá ÍBV var Birna Berg Haraldsdóttir markahæst með fimm mörk en úr ellefu tilraunum, þar sem Hafdís reyndist henni erfið. Marta Wawrzykowska varði sjö skot í marki ÍBV, með markvörslu upp á rúm 20 prósent.