Skoðun

Enn og aftur sumar­lokun hjá SÁÁ

Sigmar Guðmundsson skrifar

Ég fékk það staðfest fyrr í dag að SÁÁ lokar meðferðarstöðinni Vík í sumar vegna fjárskorts. Og göngudeildinni. Enn og aftur þarf að loka í sex vikur. Fólk sem leitar sér aðstoðar á Vogi í sumar fær sem sagt ekki neina samfellu í sinni meðferð. Eftir tíu daga á Vogi tekur ekkert við, hvorki göngudeild né Vík, fyrr en eftir dúk og disk.

Í dag eru 700 manns á biðlista hjá SÁÁ, og um hundrað manns á biðlista hjá Krýsuvík. Sumarlokun í sex vikur hjá stærstu meðferðarstöðinni bætir enn á þann vanda. Mér finnst þetta vera skeytingarleysi gagnvart fólki með fíknisjúkdóm því heilbrigðisráðherra svaraði mér þannig í þinginu síðasta haust að þetta myndi ekki endurtaka sig.

„Jú, við eigum alveg að geta haldið meðferðarstöðinni Vík opinni vegna þess að staðreyndin er sú að þetta myndi kosta innan við 1% af ríkisframlagi. Það á ekki að standa í neinum. Ég er bara að segja að ég er alltaf tilbúinn til samtals og hef spurt af hverju og hvað þurfi til að halda þessu gangandi.“

Svo mörg voru þau orð, en því miður reyndust þau marklaus. Lok, lok og læs. Ég spurði Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra um þetta á Alþingi í dag og hann hafði ekki heyrt af þessari lokun nú. Það er erfitt að átta sig á hvernig það má vera að atburðarásin er alltaf sú sama, en ekkert breytist. Það þarf að bæta við fjármagni, allir sammála um það á haustin, en svo gerist ekkert og þjónustan skerðist verulega yfir sumartímann.

Ráðherra verður að stíga fastar inn í þessa atburðarás. Hann hefur úrræði og völd til að koma í veg fyrir þetta. Það er ekki sannfærandi að vísa í vinnu starfshópa eða yfirstandandi samningaviðræðna á milli SÁÁ og sjúkratrygginga. Það þarf að hlúa að fólki í dag og í sumar. Fólk veikist þótt nefndir séu að störfum og samningaviðræður í gangi. Þetta er einfaldlega banvænn sjúkdómur og hann fer ekki í sumarfrí. Þetta er bara algerlega glatað í alla staði. Við verðum að gera betur.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar




Skoðun

Sjá meira


×