Veður

Skúrir og slyddu­él í suð­lægum áttum

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu í dag verður á bilinu þrjú til tólf stig.
Hiti á landinu í dag verður á bilinu þrjú til tólf stig. Vísir/Vilhelm

Lægð á Grænlandshafi beinir suðlægri átt, víða fimm til þrettán metrum á sekúndu, til landsins í dag. Gera má ráð fyrir skúrum eða slydduéljum, en snjóéljum á fjallvegum.

Á vef Veðurstofunnar segir að á norðaustanverðu landinu verði þurrt og bjart framan af degi, en seinnipartinn megi búast við stöku skúrum á þeim slóðum.

Hiti verður þrjú til tólf stig yfir daginn þar sem hlýjast verður norðaustantil.

„Í nótt og fyrramálið kemur hæð inn á Grænlandshaf og lægðin hörfar til norðausturs. Það verður því vestlæg átt á morgun, yfirleitt hægari vindur en í dag og léttir víða til, en þó eru líkur á stöku skúrum eða slydduéljum norðan- og vestantil á landinu. Hiti 3 til 11 stig að deginum, mildast á Suðausturlandi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Vestan 5-13 m/s, en hægari síðdegis. Bjart með köflum og stöku skúrir eða slydduél, en léttskýjað á Suðausturlandi. Hiti 3 til 10 stig að deginum.

Á fimmtudag (uppstigningardagur): Suðlæg eða breytileg átt 3-10 m/s. Skýjað með köflum vestantil, en lengst af bjartviðri annars staðar. Hiti breytist lítið. Vaxandi austanátt við suðurströndina um kvöldið.

Á föstudag: Austan og suðaustan 5-15, hvassast við suðurströndina. Rigning eða súld með köflum, en yfirleitt þurrt á norðanverðu landinu fram á kvöld. Hiti 5 til 12 stig.

Á laugardag og sunnudag: Suðaustlæg eða breytileg átt og væta með köflum, en lengst af úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hlýnar heldur.

Á mánudag: Breytileg átt og rigning með köflum. Hiti 4 til 11 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×