Hópur stuðningsmanna mætti á æfingasvæði Standard og kom í veg fyrir að liðsrútan kæmist af stað í leikinn, en þeir eru sérstaklega óánægðir með bandaríska eigendur félagsins.
Í tilkynningu frá Standard sagði að tilraunir til að semja við stuðningsmennina hefðu engu skilað og því gæti leikurinn ekki farið fram, og bað félagið stuðningsmenn sína og Westerlo afsökunar á því.
Standard hefur tíu sinnum orðið belgískur meistari og átta sinnum bikarmeistari, þar af einu sinni með Ásgeir Sigurvinsson í broddi fylkingar.
Sex ár eru hins vegar liðin frá síðasta stóra titli og lið Standard ekki lengur meðal þeirra bestu í Belgíu. Stuðningsmenn kenna bandarískum eigendum félagsins um, en fjárfestingafélagið 777 Partners keypti félagið í mars 2022. Það félag verst nú lögsókn vegna meintra fjársvika fyrir 600 milljónir Bandaríkjadala, og er Standard sem stendur í félagaskiptabanni.
Belgíska blaðið HLN sagði í vikunni að leikmenn Standard hefðu ekki fengið laun sín greidd í apríl.
Standard endaði í 10. sæti af 16 liðum áður en belgísku deildinni var skipt upp í vor, og spila því ásamt fimm öðrum liðum um 7.-11. sæti í úrslitakeppninni, þar sem keppt er um sæti í Sambandsdeild Evrópu. Þar hefur liðið ekki unnið neinn af sjö leikjum sínum og situr því í 11. sætinu, eftir 3-1 tap gegn Jóni Degi Þorsteinssyni og félögum í OH Leuven í síðasta leik.