Þar segir að markmiðið sé að bæta umferðaröryggi þeirra sem ganga og hjóla um þessi fjölförnu gatnamót. Framkvæmdir hefjast á morgun, 28. maí og áætlað er að þær standi til 19. ágúst næstkomandi.
Á vef Vegagerðarinnar er því nánar lýst hvað felist í verkinu:
- Gangbrautir verða á öllum framhjáhlaupum með hraðalækkandi aðgerðum. Til skýringar þá er framhjáhlaup sú gata sem fer til hægri af aðalbraut og leiðir umferð framhjá ljósastýrðum gatnamótum.
- Lýsing verður bætt við leiðir gangandi og hjólandi vegfarenda um gatnamótin.
- Viðvöruhellur verða lagðar við allar þveranir við framhjáhlaup.
- Gönguleiðir í miðeyjum við framhjáhlaup verða lagfærðar.

„Búast má við töfum fyrir akandi, gangandi og hjólandi umferð. Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og ökumenn eru sérstaklega beðnir um að sýna tillitssemi meðan á framkvæmdum stendur og aka með varúð um vinnusvæðið.
Verkfræðistofan Efla hannaði breytingarnar. Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar,“ segir enn fremur í tilkynningu Vegagerðarinnar.