Skoðun

Stuðnings­maðurinn og valdið

Ólöf Þorvaldsdóttir skrifar

Valdið útdeilir gæðum, það ákveður hver fær stöðuna eða styrkinn, það býður í veisluna með þeim mikilvægu og auðvitað ferðirnar og listahátíðirnar, maður minn. Valdið veitir embættið, aðstöðuna, stjórnar samtalinu, stýrir klappinu. Valdið skapar frægðina og frægðin styður valdið, ef þú klappar mér - þá klappa ég þér.

Valdið opnar dyr - en lokar þeim líka. Frægð er nefnilega sjaldan ókeypis. Það á jafnt við um Marilyn Monroe sem fjölda Íslendinga. Íslenskur kálfur veit hvað til síns friðar heyrir.

Frægð vekur stórar fyrirsagnir. Stóru fyrirsagnirnar segja hvorki frá óþekkta stuðningsmanninum, uppteknum í sauðburði, sjómanninum á kafi við að færa okkur fiskinn upp á diskinn né unga nemanum í prófum erlendis. Þær eru ekki valdar fyrir afskipta eldri borgarann, sem hefur ekki efni á ferð til kjörstaðar, eða öryrkjann sem hefur beðið í sjö ár eftir efndum. Stóru fyrirsagnirnar eru fræga stuðningsfólksins sem valdið valdi. Stuðningur er gjaldið fyrir kálfseldið - annars hangir skellurinn í loftinu; hurðarskellur sem sendir fólk út í kuldann og þá er eins gott að hafa sterk bein í nefi.

Ég hef fylgst undanfarið með konu sem einmitt hefur sterk bein í nefi - konu sem óttast ekki skell en hefur kosið að standa við hlið þjóðarinnar, konu sem hefur kjark til að segja valdinu að heimilin skuli ganga framar auðvaldinu í orkumálum. Konu sem vill frið en ekki vopnavald. Konu sem vill auðga mannlíf og möguleika um allt land.

Það er óumræðilega notalegt að geta treyst á heilindi og geta horft til þess að almenningur á Íslandi eigi ofurkonu eins og Höllu Hrund með sér í liði. Það verður gaman að fylgjast með því hvernig magnaður persónuleiki hennar, mótaður af réttlætiskennd og ást á landi og þjóð snýr sér gegn þeim sem vinna gegn almannahag - og hvernig hún mun beita kröftum sínum fyrir fólkið í landinu.

Ég hlakka til framtíðar með Höllu Hrund sem forseta Íslands.

Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri. 




Skoðun

Sjá meira


×