Freyr vann mikið þrekvirki með Kortrijk á nýafstöðnu tímabili. Hann tók við þjálfun liðsins þar sem það var í nær ómögulegri stöðu á botni deildarinnar og fall úr belgísku úrvalsdeildinni tókst við. Á ótrlúlegan hátt náði Freyr þó að blása lífi í daufa blöðru Kortrijk sem bjargaði sér frá falli með sigri í framlengdum leik gegn Lommel á dögunum.

Starfið vann hann fjarri fjölskyldu sinni sem varð eftir í Danmörku þegar að Freyr hélt yfir til Belgíu. Frá Danaveldi var hann sóttur til þess að vinna kraftaverk.
„Það er búið að vera erfitt,“ segir Freyr aðspurður hvernig það hafi verið fyrir hann að vera svona mikið fjarri fjölskyldu sinni. „Ég veit ekki hvort að allir séu svona en ég á allavegana mjög erfitt með að vera svona lengi frá fjölskyldunni minni. Ég vil bara geta verið til staðar fyrir hana. Hjálpað og þarf bara á þeim að halda líkt og þau þurfa á mér að halda. Ef mér hefði ekki tekist ætlunarverkið með Kortrijk, þá hefði ég átt mjög erfitt að höndla það sökum þess hversu mikið ég hef verið í burtu frá fjölskyldunni minni. Það er þó búið að vera mjög gaman hjá okkur þegar að þau koma í heimsókn. Við höfum átt góðar stundir.
En það sé líka annað sem gerist þegar að maður er svona mikið fjarri fjölskyldunni sinni.

„Maður fer allt í einu að vera þakklátari fyrir ótrúlegustu hluti. Ég hlakka til að fara aftur til Danmerkur, þar sem að fjölskyldan mín er, og fara aftur í það að elda mat á kvöldin fyrir þau. Ég hlakka til að fara í göngutúr í skóginum með börnunum mínum og konunni minni. Drekka kaffibolla á ný með konunni minni á morgnanna. Hlutir sem maður er ekkert að pæla í fyrr en að maður áttar sig á ótrúlegum smáatriðum sem við, manneskjurnar, gleymum í hversdagsleikanum að vera þakklát fyrir. Ég er búinn að læra ótrúlega mikið um sjálfan mig þessa undanfarna mánuði hér í Belgíu. Ég tek marga góða hluti út úr söknuðinum og ætla að nýta mér þá góðu hluti sem felast í því að þroskast sem manneskja.“