Bill Anders var einn um borð í einshreyfils flugvél sinni í fyrradag þegar hún skall í sjóinn aðeins um 30 metrum frá strönd Jones-eyju, um 140 kílómetrum norðan við borgina Seattle. Lík hans fannst nokkrum klukkustundum síðar.

Hann hlaut heimsfrægð árið 1968 þegar hann var í þriggja manna áhöfn Apollo 8, fyrsta mannaða geimfarsins sem yfirgaf sporbraut jarðar og jafnframt þess fyrsta sem fór umhverfis tunglið. Fjölmiðlar heims hafa þó um helgina einkum minnst hans fyrir að hafa tekið einhverja áhrifamestu ljósmynd tunglferðanna, mynd sem jafnan er nefnd „Earthrise”, þegar geimfararnir komu undan bakhlið tunglsins og sáu „jarðarupprás” og Jörðina birtast þeim eins og sólarupprás.
„Við komum alla þessa leið til að kanna tunglið en það mikilvægasta sem við uppgötvuðum var Jörðin,” sagði Bill Anders en ljósmyndin er talin hafa átt mikinn þátt í að efla umhverfisvitund meðal almennings og beina sjónum fólks að verndun jarðar.

Örlygur Hnefill segist hafa verið í reglulegu sambandi við Bill frá því hann heimsótti Ísland árið 2013, síðast hafi hann heyrt frá honum fyrir nokkrum vikum.
„Bill fylgdist vel með eldsumbrotum í Grindavík og hugsaði alltaf mikið til Íslands. Fyrir nokkrum vikum sendi hann mér póst þar sem hann sagði að ef hann hefði heilsu til langferða þá væri aðeins einn staður sem hann langaði að heimsækja einu sinni enn, og það var ekki tunglið, heldur Ísland,” segir Örlygur.

Í þættinum Um land allt um Húsavík frá árinu 2013, þegar Örlygur var að undirbúa stofnun safns um könnunarsögu mannkyns, sýndi hann okkur íslenskan pening, 25-eyring, sem Bill Anders laumaðist til að taka með sér í tunglferð Apollo 8. Eftir komuna til jarðar lét Bill steypa 25-eyringinn í glæran plasthjúp, sem hann færði svo íslenskum vini sínum að gjöf, Pétri Guðmundssyni, flugvallarstjóra á Keflavíkurflugvelli.
„Þetta myndi ég segja að væri einhver merkilegasti peningur sem er til og náttúrlega merkilegasti peningur Íslandssögunnar.
Og eini peningurinn sem hefur farið í slíkt ferðalag. Það fór enginn dollari til tunglsins,” sagði Örlygur Hnefill í þættinum Um land allt frá 2013, sem sjá má hér:
Örlygur segir íslenska 25-eyringinn hafa verið til góðrar lukku og hann hafi spurt Bill hvort hann hafi gert gagn. Hann hafi þá svarað glettinn:
„Well, we made it back - Thor was with us".

Bill Anders kynntist fyrst Íslandi og Íslendingum þegar hann var orustuflugmaður hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Hann var einnig ákafur laxveiðimaður og veiddi meðal annars í Norðurá, Hofsá og Elliðaám sem og á urriðasvæðinu í Laxá í Þingeyjarsýslu.
„Hann dvaldi við herþjónustu í Keflavík frá 1957 til 1958 og eignaðist þá fjölda íslenskra vina,” segir Örlygur.

Árið 1964 var hann valinn í hóp geimfara NASA vegna tunglferðanna. Hluti af þjálfun þeirra fólst í að kynnast jarðfræði Íslands og upplifa landslag sem minnti á tunglið.

„Hann var eini geimfari NASA sem kom í báðar þjálfunarferðirnar til Íslands, árin 1965 og 1967,” segir Örlygur og rifjar upp samtal sem hann og Rafnar Orri Gunnarsson áttu við Bill fyrir fimm árum.

„Í viðtali okkar Rafnars Orra við Bill árið 2019 sagðist hann hafa óskað sérstaklega eftir því að fara í báðar ferðirnar því að hvergi hafi honum liðið betur og að árnar á Íslandi væru sérstaklega fengsælar.”
Í ágústmánuði árið 1969 kom Bill Anders aftur til Íslands ásamt eiginkonu og börnum. Sú heimsókn vakti mikla athygli íslenskra fjölmiðla enda var þetta aðeins einum mánuði eftir för Apollo 11 þegar Neil Armstrong steig fyrstur manna fæti á tunglið. Bill hélt þá fyrirlestur um tunglferðirnar í Háskólabíói en hann var í varaáhöfn Apollo 11. Aðaltilgangur Íslandsferðarinnar var þó að heimsækja vin sinn, Pétur Guðmundsson, og fara með honum í laxveiði.
Bill kom síðast til Íslands árið 2013 ásamt syni sínum Greg. Hann rifjaði þá upp kynni sín af æfingasvæði tunglfaranna í kringum Öskju.

„Og ferðaðist með okkur Andra Ómarssyni og Sævari Helga Bragasyni við kvikmyndatökur í Drekagil ásamt góðum hópi fólks. Hann naut þess að koma aftur, var okkur þá ungu mönnunum sérstaklega rausnarlegur og ég hef haldið reglulegu sambandi við hann síðan þá.
Árið 2019 heimsóttum við Rafnar hann í San Diego þar sem hann sýndi okkur heimili sitt og fór með okkur í flugsafnið,” segir Örlygur.

Hann segir að í fyrra hafi þeir sæmt Bill Landkönnunarverðlaunum Leifs Eiríkssonar. Af því tilefni hafi þetta myndband verð gert:
https://www.youtube.com/watch?v=g3q6yvf24tM
„Takk fyrir kynnin Bill Anders,” er kveðja Örlygs Hnefils Örlygssonar.