Klausturhóladagurinn er á morgun, sunnudaginn 16. júní en það er árlegur hátíðisdagur heimilis- og starfsfólks Klausturhóla þar sem verður meðal annars til sýnis og sölu handverk heimilismanna. Þennan dag hefst líka formlega söfnun á gróðurskála við heimilið.

„Já, við erum að fara að setja upp gróðurskála, heljar mikla byggingu, sem verður um 60 fermetrar. Það myndi gera mikið fyrir okkur en skálinn er ekki bara hugsað fyrir okkur, heldur líka fyrir eldri borgara í sveitarfélaginu að koma hér og eiga góða stund saman, pota í mold og setjast niður og fá sér kaffisopa og kannski að taka í spil,” segir Margrét Guðmundsdóttir, hjúkrunarforstjóri Klausturhóla.

Sérstök gróðurskálanefnd er að störfum vegna söfnunarinnar en samkvæmt upplýsingum þaðan er talið að gróðurskálinn gæti kostað á milli 40 og 50 milljónir króna. Nú þegar hefur fengist styrkur úr framkvæmdasjóði aldraðra til að byrja á byggingunni.
„Ég vona að ef söfnunin fer vel af stað núna að það verði byrjað í sumar og svo er spurning hvað það kemst langt þá áður en það verður komin vetur,” bætir Margrét við.
Þeir sem vilja taka þátt í söfnunni eða leggja henni lið á einhvern hátt geta haft samband við Margréti eða aðra starfsmenn á Klausturhólum.
