England tryggði sér sigur í C-riðli Evrópumótsins í fótbolta er liðið gerði markalaust jafntefli gegn Slóveníu í kvöld. Leikir Englands til þessa hafa ekki verið neinar flugeldasýningar og ekki varð nein breyting á því í kvöld.
Enska liðið var mun meira með boltann í leik kvöldsins, en ekki er hægt að segja að liðið hafi vaðið í opnum marktækifærum.
Besta færi leiksins fékk framherjinn Harry Kane á 40. mínútu, en inn vildi boltinn ekki og staðan í hálfleik því 0-0.
Síðari hálfleikur bauð ekki upp á mikið meira en sá fyrri. Englendingar héldu boltanum vel innan liðsins, en færin létu á sér standa.
Fór það því svo að lokum að niðurstaðan varð markalaust jafntefli og liðin skiptu stigunum bróðurlega á milli sín. Englendingar eru þar með búnir að tryggja sér sigur í C-riðli með fimm stig og eru á leið í 16-liða úrslit. Slóvenar enda hins vegar með þrjú stig í þriðja sæti og fylgja Englendingum upp úr riðlinum.