Ítalir skoruðu jöfnunarmark gegn Króötum þegar átta mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Fyrir vikið eru möguleikar Króatíu á að komast í sextán liða úrslit mótsins afar litlir.
Eftir leikinn í Leipzig á mánudaginn beið stuðningsmaðurinn Lenard Barisic eftir að fá treyju Ivanusec.
Hann fékk ekki treyjuna heldur hafði bara tvö bitför á öxlinni upp úr krafsinu. Þrír aðrir stuðningsmenn réðust nefnilega á Barisic, hrifsuðu treyjuna til sín og einn þeirra beit Barisic í öxlina.
Hér fyrir neðan má sjá Barisic sýna bitförin sem hann fékk.
Atvikið var tilkynnt til þýsku lögreglunnar sem er með málið til rannsóknar.
Eftir að hafa frétt af árásinni á Barisic hafði Ivanusec samband við hann og bauðst til að láta hann fá treyju sína.
Króatía endaði í 3. sæti B-riðils með tvö stig. Afar litlar líkur eru á því að stigin tvö dugi Króötum til að komast í sextán liða úrslit. Fjögur af þeim liðum sem enda í 3. sæti riðlanna sex á EM komast áfram í útsláttarkeppnina.