Benedikt átti frábært tímabil með Val sem varð bikarmeistari og vann svo EHF-bikarinn, fyrst íslenskra liða. Hann skoraði meðal annars sautján mörk í bikarúrslitaleiknum gegn ÍBV.
Hinn 22 ára Benedikt hefur samið við Noregsmeistara Kolstad. Hann er þó enn hér á landi og var í leikmannahópi KH gegn Kríu í 4. deildinni í fótbolta í gær.
Benedikt kom inn á 71. mínútu, þegar staðan var 2-2. Og hann var ekki lengi að láta að sér kveða. Þegar tvær mínútur voru til leiksloka kom hann KH yfir og á sjöttu mínútu í uppbótartíma skoraði hann annað mark sitt og fjórða mark Hlíðarendapilta sem unnu leikinn 4-2.
KH er í 4. sæti 4. deildarinnar með þrettán stig eftir níu leiki.