Sport

Var kominn inn á heimsleikana í CrossFit en féll á lyfja­prófi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ivan Kukartsev kallar sig Ívan þann eina og sanna á samfélagsmiðlum. Hann fær ekki að upplifa draum sinn um að keppa á heimsleikunum í ár.
Ivan Kukartsev kallar sig Ívan þann eina og sanna á samfélagsmiðlum. Hann fær ekki að upplifa draum sinn um að keppa á heimsleikunum í ár. @ivan_the_one

Það eru ekki góðar fréttir af undanúrslitamóti Asíu fyrir heimsleikanna í CrossFit því í ljós kom að þrír höfðu svindlað í keppninni.

Þrír af fjórum efstu á undanúrslitamóti Asíu féllu nefnilega á lyfjaprófi og þar á meðal var Rússinn Ivan Kukartsev sem vann undanúrslitamótið og hafði þar með tryggt sig inn á heimsleikana.

Vefur The Barbell Spin hefur fjallað um þetta lyfjahneyksli í CrossFit heiminum.

Kukartsev fær því ekki að taka þátt í heimsleikunum í ár. Ekki heldur þeir Ilyas Kuliev, sem var þriðji og Anatolii Borisenko, sem varð fjórði í þessum undanúrslitamóti. Þeir féllu líka á lyfjaprófi.

Ilya Makarov, sem varð fimmti á undanúrslitamótinu, var boðið sætið og hann keppir því á heimsleikunum í haust ásamt landa sínum Arthur Semenov sem var sá eini af efstu fjórum sem svindlaði ekki.

Vörn Kukartsev var að einhver hefði laumað efninu í drykkinn hans.

„Ég vil ekki breytast í einhvern geðklofasjúkling en ég þekki vel umhverfið í rússnesku CrossFit. Ég geri þess vegna ráð fyrir því að einhver hafi sett eitthvað út í vatnsflöskuna mína,“ sagði Ivan Kukartsev í yfirlýsingu.

Ilyas Kuliev sagðist hafa keypt íþróttadrykk í Tyrklandi og ekki vitað að í honum væri ólögleg efni. „Efnið heitir Super DMZ og ég vil taka það fram að það er ekki á bannlistanum á heimasíðu WADA,“ sagði Kuliev í sinni yfirlýsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×