Leikurinn hefst klukkan 18.45 á morgun, þriðjudag, og verður í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport. Hvorki Aron Elís Þrándarson né Davíð Örn Atlason verða í liði Víkings ef marka má orð Arnars Gunnlaugssonar, þjálfara liðsins, í samtali við mbl.is í dag.
Aron Elís sneri til baka í Víkina um mitt síðasta sumar og skoraði alls 9 mörk í 13 leikjum þegar Víkingar tryggðu sér Íslands- og bikarmeistaratitilinn. Þessi öflugi miðjumaður hefur haldið áfram að hrella varnir andstæðingsins á þessari leiktíð og er kominn með fjögur mörk.
Ljóst er að um mikið högg er að ræða fyrir Víking en Aron er án efa einn af betri leikmönnum Bestu deildarinnar.
Hægri bakvörðurinn Davíð Örn hefur leikið eins og engill bæði í ár og á síðustu leiktíð. Hann á tæplega 250 leiki að baki fyrir Víkinga og einnig ljóst að hans verður sárt saknað á morgun.
Aðrir leikmenn Víkinga eru klárir í slaginn og verður áhugavert að sjá hvernig Arnar stillir upp gegn Írunum í Shamrock Rovers annað kvöld. Allt í beinni á Stöð 2 Sport.