Innlent

Lök staða í lónum Lands­virkjunar

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Hálslón í veðurblíðu.
Hálslón í veðurblíðu. Landsvirkjun

Staðan í lónum Landsvirkjunar er frekar lök, en vorleysing byrjaði seint, og júní var kaldur og þurr. Vonast er til þess að jökulbráð og haustrigningar bæti úr áður en nýtt vatnsár hefst þann 1. október.

Þetta kemur fram í tilkynningu Landsvirkjunar. Þar segir að vorleysing hafi byrjaði seint á öllum vatnasviðum Landsvirkjunar, en í byrjun maí hafi hlýnað og snjóa hafi leyst. Maí hafi verið gjöfull fyrir Blöndulón og Þórisvatn. Drjúgt hafi safnast í þessi lón.

„Fyrir austan, í Hálslóni, náði leysingin að stöðva niðurdrátt og halda þannig í horfinu.“

Júní hafi hins vegar verið kaldur og þurr, sérstaklega eftir norðanhret í byrjun mánaðarins. „Í júní bættist því ekkert við Blöndulón og það hægðist á fyllingu Þórisvatns. Eftir miðjan mánuðinn fór að hækka í Hálslóni samfara hækkandi hitastigi þar en enn vantar þó 15 metra upp á að vatnshæðin nái meðalhæð í júlíbyrjun.“

Hálslón hafi reyndar alltaf fyllst og því standi vonir til þess að jökulleysingin það sem eftir lifir sumars bæti úr.

Of snemmt að segja til um vetrarforðann

Þá segir að þótt staðan sé með lakara móti í lónunum núna sé algengt að jökulbráð hefjist af krafti fyrri part júlímánaðar. „Of snemmt er því að segja til um hver staðan verði í lónunum þegar nýtt vatnsár hefst þann 1. október. Jökulbráð hefur aukist undanfarin ár með hlýnandi loftslagi og haustlægðirnar hafa oft bætt töluverðu við,“ segir í tilkynningu Landsvirkjunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×