Friðjón segir að Biden hafi svarað spurningum blaðamanna í gær vel, hvað málefni eins og utanríkis- og varnarmál varðar. Vandinn sé hins vegar að þau mál vinni ekki kosningar.
„Kjósendur hugsa miklu meira um mál sem standa þeim nærri. Veskið og hvernig farnast foreldrum og börnum og svoleiðis,“ segir Friðjón. Ef Biden ætli sér að vinna kosningarnar þurfi hann að standa sig vel í öðrum málum.

Kallaði Obama „Barack America“
Friðjón segir Biden eiga langa sögu af mismælum. „Fyrir sextán árum þegar hann og Barack Obama voru í framboði, þá kallaði hann Barack Obama „Barack America.“ Þannig þetta hefur svosem gerst áður,“ segir Friðjón.
Vandinn sé hins vegar sá að eftir kappræðurnar í síðasta mánuði, séu komnar svo miklu dýpri og erfiðari spurningar um getu hans til að sinna starfinu. „Ekki bara núna, heldur hvernig verður það eftir fjögur og hálft ár, þegar hann lætur af embætti?“ segir Friðjón.
Biden þurfi að láta kosningabaráttuna snúast um Trump
Friðjón segir að Biden þurfi að vera ótrúlega heppinn og eiga fullkomna kosningabaráttu til að eiga möguleika á því að vinna kosningarnar. Þar að auki þyrfti Trump helst að lenda í meiriháttar vandræðum. „Líkurnar á því að Biden vinni eru afar litlar. Bandarískir kjósendur treysta honum ekki,“ segir Friðjón.
„Trump ætlar að láta þessar kosningar snúast aldur og heilsufar Biden. Ef Demókratar ætla að vinna þurfa þeir að láta þessar kosningar snúast um Trump og hvernig hann var sem forseti, þá óreiðu og vandræði sem voru þá í gangi,“ segir Friðjón. Flestir ráðherrar úr ríkisstjórn Trumps styðji hann ekki núna og vari við honum.
Hann telur að Biden ætli að láta tímann líða þannig að demókrataflokkurinn sitji uppi með hann sem frambjóðanda. „En ef þrýstingurinn vex og fleiri þungavigtarmenn koma fram í demókrataflokknum, þeim mun erfiðara verður fyrir hann að halda áfram. Þá mun Harris að öllum líkindum taka við,“ segir Friðjón.