Ásgerður var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun og þar sagði hún þá stöðu komna upp hjá Fjölskylduhjálp að grípa þurfti til þessara ráðstafana. Ekki sé hægt að bjóða skjólstæðingum þeirra upp á að þora ekki í röðina.
„Við auglýstum að nú værum við bara með fyrir Íslendinga, og þá erum við ekkert að vanvirða útlendingana. En málið er að okkar skjólstæðingar í gegnum áratugina hafa verið Íslendingar en þetta fólk veigrar sér í dag við að fara í röðina,“ segir Ásgerður.
Hótuðu ofbeldi og heimtuðu að vera fyrstir
Hún segir tvo Palestínumenn hafa hótað sjálfboðaliðum Fjölskylduhjálpar.
„Við höfum lent í miklum vandræðum með Palestínumenn. Á þriðjudaginn þá hótuðu þeir okkur. Ég ætla að fara heim til þín og ég veit ekki hvað og hvað. Við hringdum á lögregluna og þeir voru farnir tveir, ofboðslega grimmir menn. Við erum búin að þola þetta í nokkur ár en við höfum aldrei talað um þetta. Þeir komu þegar öll röðin var og þeir heimtuðu að vera fyrstir,“ segir Ásgerður en tekur fram að það sé ekki kynþáttahatur sem búi þessu að baki.
Ákveðnir dagar fyrir Íslendinga
Aðspurð segist Ásgerður ekki sjálf vera hrædd við þessar hótanir en að bregðast þurfi þó við og tryggja öryggi þiggjenda.
„Við erum ekki þannig þenkjandi Íslendingar. Við bara trúum þessu ekki. En auðvitað veit maður aldrei vegna þess að maður er að sjá hitt og þetta. En það sem við þurfum að gera á næstu vikum er að breyta og vera með ákveðna daga í mánuði fyrir Íslendinga. Og þá er það alveg óháð því hvort þeir séu Íslendingar með erlendan uppruna, búnir að samlagast þjóðfélaginu, og síðan bara fæddir Íslendingar hér,“ segir Ásgerður.
„Við getum ekki boðið þeim það að þeir þori ekki í raðirnar,“ segir hún.