Fótbolti

Leikur flautaður af í Noregi: Hundrað fiskibollum hent inn á völlinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fiskibollurnar voru út um allan völl á Lerkendal leikvanginum í gær.
Fiskibollurnar voru út um allan völl á Lerkendal leikvanginum í gær. Skjámynd/Verdens Gang

Dómari leiks Rosenborg og Lilleström í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta tók þá ákvörðun að flauta leikinn af í gær eftir að áhorfendur hættu ekki að henda hlutum inn á leikvöllinn.

Dómarinn hafði stöðvað leikinn í þrígang en gafst upp þegar hann þurfti að stöðva leikinn í fjórða skiptið. Í hvert skiptið sem hann stöðvaði leikinn þá rak hann alla leikmenn inn í búningsklefa. Norska ríkisútvarpið segir frá sem og Verdens Gang hér.

Að lokum fannst dómaranum vera komið nóg og því ákvað hann að flauta leikinn af. „Vinsamlegast yfirgefið leikvanginn,“ kom upp á skjáinn á vellinum. Eðlilega voru margir pirraðir ekki síst leikmenn liðanna.

„Það er rosalega sorglegt að dómarinn tók þessa ákvörðun. Þarna komu greinilega fyrirmæli frá sambandinu, sagði Jens Haugland, framkvæmdastjóri Norsk Toppfotboll, við TV2.

Strax á annarri mínútu leiksins þá fóru áhorfendur að kasta tennisboltum og fiskibollum inn á völlinn. Stuðningsmenn beggja lið sameinuðust um mótmælin en þeir voru þarna að mótmæla myndbandsdómgæslu í norsku deildinni.

„Við munum aldrei gefast upp“

Norska knattspyrnusambandið tók upp myndbandsdómgæslu fyrir síðasta tímabil og stuðningsmenn margra félaga eru mjög ósáttir með það. Skilaboðin frá stuðningsmönnunum voru skýr: „Við munum aldrei gefast upp. VAR er á útleið,“ sungu þeir.

„Þetta snýst um öryggi. Hundrað fiskibollum var kastað inn á völlinn og nokkrar reyksprengjur fylgdu seinna í kjölfarið. Þá var ljóst að það var ekki lengur hægt að tryggja öryggi leikmanna,“ sagði dómari leiksins, Arild Rudolf Thorp.

Það er ekki ljóst hvenær leikurinn verður kláraður en það verður ekki í dag. Félögin og norska sambandið munu funda um nýjan leiktíma í þessari viku.

Ógeðslegt og ábyrgðarlaust

„Þetta er ógeðslegt og algjörlega ábyrgðarlaus hegðun. Við munum funda aftur um þetta mál seinna í kvöld,“ sagði Karl-Petter Løken, framkvæmdastjóri norska knattspyrnusambandsins, við Verdens Gang.

Þetta er heldur ekki í fyrsta sinn sem norskir stuðningsmenn mótmæla VAR. Tennisboltar komu líka við sögu á leik Brann og Haugesund. Þetta var hins vegar í fyrsta sinn sem leikmenn voru látnir yfirgefa völlinn og í fyrsta sinn sem leikur er flautaður af.

„Ég skil alveg af hverju norska knattspyrnusambandið vill reyna að taka athyglina frá VAR málinu og í staðinn setja sviðsljósið á mótmælin. Þeir verða bara að sætta sig við smá óhlýðni hjá borgurunum,“ sagði Ole Kristian Sandvik, fulltrúi norskra stuðningsmannafélaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×