Sport

Keppnislaugin hýsti Taylor Swift tón­leika í maí

Siggeir Ævarsson skrifar
Svona var umhorfs á Paris La Défense Arena þann 12. júní
Svona var umhorfs á Paris La Défense Arena þann 12. júní vísir/Getty

Þegar Ólympíuleikar eru haldnir þarf oft að byggja keppnisvelli sem eru aðeins notaðir meðan á leikunum stendur og eru svo annað hvort rifnir eða grotna niður. Keppnislaugin í París í ár verður vissulega rifin að leikunum loknum en byggingin sem hýsir hana er ekki að fara neitt.

Laugin, eða laugarnar en þær eru tvær, er byggð inni í Paris La Défense Arena, sem er fjölnota hús, notað bæði fyrir tónleika og ruðning en Racing 92 leikur sína heimaleiki þar. Höllin tekur 30.680 í sæti á ruðningsleikjum en 40.000 manns þegar tónleikar eru á dagskrá.

Taylor Swift hélt ferna tónleika þar í maí og alls mættu 180.000 manns á tónleikana, svo að það hefur eflaust verið þröngt á þingi. Í nóvember mæta svo kanadísku pönkararnir í Sum 41 og sjálfur Paul McCartney ætlar að halda tvenna tónleika þar í desember. Þess má til gamans geta fyrir áhugasama að það eru enn til miðar á tónleikana hjá McCartney.

En höllinni hefur sem sagt tímabundið verið breytt í innanhússundlaug. Eftir tónleika Taylor Swift tók Myrtha Pools við lyklunum þann 20. maí og hafði fyrirtækið 60 daga til að byggja tvær 50 metra laugar og dæla í þær fimm milljónum lítrum af vatni.

Tímalínan hélt og nú geta 15.000 manns fylgst með keppni í sundi á Ólympíuleikunum úr sætunum í Paris La Défense Arena. Þetta eru sjöttu Ólympíuleikarnir þar sem Myrtha Pools hefur yfirumsjón með uppsetningu keppnislauganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×