Anton Sveinn segist í færslu sinni á samfélagsmiðlum að hafa eytt meira en fimmtán árum í undirbúningi fyrir þetta augnablik í sundlauginni í París í dag.
Anton kallar þetta líka „upphafið á endinum“ og vitnar síðan í þekkta vísu eftir Egill Skalla-Grímsson.
Sagði hann vera víkingsefni
„Þat mælti mín móðir“ vísuna á Egill hafi kveðið þegar Bera móðir hans sagði hann vera víkingsefni.
Á vef Árnastofnunar kemur fram að Egill „hafði þarna unnið sitt fyrsta víg er hann vóg Grím son Heggs á Heggstöðum eftir að Grímur hafði leikið hann illa í knattleik. Egill var þá á sjöunda vetri en Grímur var ellefu eða tíu vetra og sterkur eftir aldri,“ eins og þar segir.
Það er ljóst á þessu að Anton ætlar að sækja sér kraftinn í sitt eigið Víkingablóð.
Í fjórða og síðasta riðlinum
Anton Sveinn syndir í undanrásum í 200 metra bringusundi og er í fjórða og síðasta riðlinum. Keppni í hans grein á að fara af stað klukkan 11.01 að íslenskum tíma en búast má við að hann syndi í kringum 11.15.
Okkar maður er skráður á tímanum 2:09.19 mín. Íslandsmetið hans er frá því í júní 2022 þegar hann synti á 2:08.74 mín. á HM í Búdapest.
Fjórir í riðli Antons eru skráðir með betri tíma en hann þar af eru tveir Kínverjar. Frakki og Hollendingur eru einnig skráðir inn á betri tíma en okkar maður.
Anton er skráður inn með þrettánda besta tímann af öllum þeim sem taka þátt í 200 metra bringsundinu og á því góða möguleika að komast áfram í undanúrslitin.