Veður

Út­lit fyrir ró­legt veður fram á föstu­dag

Kjartan Kjartansson skrifar
Þoka lá yfir borginni í morgun en létti á til með morgninum. Myndin er úr safni.
Þoka lá yfir borginni í morgun en létti á til með morgninum. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Spáð er hægu og rólegu veðri á landinu í dag og á morgun. Hiti á Suður- og Suðvesturlandi, þar sem verður bjartara yfir en annars staðar á landinu, gæti náð allt að átján stigum þar sem best lætur í dag.

Veðurstofan gerir ráð fyrir norðlægri eða breytilegri átt og vindraða innan við átta metra á sekúndu yfirleitt í dag. Spáð er skýjuðu að mestu norðan- og austanlands og hita á bilinu sjö til þrettán stig. Allra austast er spáð dálítilli rigningu. Þó að bjartara og hlýrra verði á Suður- og Suðvesturlandi eru líkur á stöku síðdegisskúrum þar.

Á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir að þokubakki sem liggur yfir leysist upp með morgninum. Hiti verði á bilinu níu til sautján gráður.

Á morgun, fimmtudag, er spáð hægum vindi áfram, skýjuðu að mestu og dálítilli vætu á stöku stað. Þá eru líkur á síðdegisskúrum á Suðurlandi. Hiti verður á bilinu sjö til fjórtán stig.

Á föstudag er hins vegar spáð norðvestan golu með dálítilli rigningu og svölu veðri um landið norðanverð. Gert er ráð fyrir mildara veðri sunnanlands og stöku skúrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×