Sport

Hundurinn sem hjálpaði Biles og Banda­ríkjunum að vinna gullið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Simone Biles og Beacon.
Simone Biles og Beacon.

Einn helsti aðstoðarmaður Simones Biles og bandarísku fimleikakvennanna á Ólympíuleikunum er ferfætlingur; hundurinn Beacon.

Bandaríkin unnu liðakeppnina á Ólympíuleikunum í París og Biles vann gull í fjölþraut og á stökki. Uppskera bandaríska liðsins var því ansi góð og mun betri en í Tókýó fyrir þremur árum.

Ein af ástæðunum fyrir góðu gengi Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum er nærvera fjögurra ára Golden Retriever hundsins Beacons. Hann hefur verið bandaríska liðinu til halds og trausts síðasta árið.

Beacon hjálpar Biles og stöllum hennar að róa taugarnar og líða eins vel og mögulegt er fyrir og eftir keppni. Beacon var með á úrtökumóti Bandaríkjanna og fór svo með til Parísar.

Beacon varð frægur eftir að Sunisa Lee, sem er í bandaríska liðinu, birti nokkrar myndir af hvuttanum frá úrtökumótinu. Frægðarsól hans hefur svo skinið enn skærar síðan Ólympíuleikarnir hófust.

Eigandi Beacons er fimleikaþjálfarinn fyrrverandi, Tracey Callahan Molnar. Þær búa saman í Pasadena í Kaliforníu. Auk þess að aðstoða fimleikafólk fer Molnar með Beacon í reglulegar heimsóknir á spítala í Pasadena.

Beacon er með sína eigin Instagram-síðu en þar má fylgjast með ævintýrum þessa lífsglaða ferfætlings.

The Guardian fjallaði ítarlega um Beacon í gær en umfjöllunina má lesa með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×