Sport

Trú­lofaði sig beint eftir keppni því hún hljóp á undir níu mínútum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Parið féllst í faðma við mikinn fögnuð allra viðstaddra.
Parið féllst í faðma við mikinn fögnuð allra viðstaddra. Hannah Peters/Getty Images

Alice Finot náði markmiði sínu og setti Evrópumet í þrjú þúsund metra hindrunarhlaupi. Hún fagnaði áfanganum með því að skella sér á skeljarnar biðja um hönd kærasta síns.

Alice varð í fjórða sæti í greininni á eftir Winfred Yavi (Barein), Peruth Chemutai (Úganda) og Faith Cherotich (Kenía). Tíminn 8:58,67 dugði því ekki til að komast á verðlaunapall en Evrópumet var sett engu að síður.

Hún stoppaði stutt við eftir hlaupið, dreif sig svo að stúkunni og bað Bruno Martínez Bargiela.

„Ég sagði sjálfri mér að ef ég myndi hlaupa á undir níu mínútum, því níu er happatalan mín og við höfum verið saman í níu ár, þá myndi ég biðja hans. Ég er mjög óhefðbundin og þar sem hann var ekki búinn að biðja mín ákvað ég að gera það,“ sagði Alice.

Það er mögulega óhefðbundið að kona biðji manns en líklega enn óhefðbundnara að gefa ekki trúlofunarhring, í stað þess var Bruno beðið með nælu sem á stóð „Ástin er í París“.

Alice skellti sér á skeljarnar.Hannah Peters/Getty Images



Fleiri fréttir

Sjá meira


×