Tarik er frá Danmörku og gekk ungur að aldri til liðs við akademíu í Óðinsvé. Honum tókst hins vegar ekki að festa sig í sessi í aðalliði OB.

Fyrir tveimur árum fluttist hann því til Vestra, sem lék þá í Lengjudeildinni en Tarik spilaði stórt hlutverk í að koma liðinu upp í deild þeirra bestu.
„Ég sakna leikmannanna. Þeir eru eins og stór fjölskylda og allir þekkja alla. Tíminn þar var mjög góður og ég á þeim margt að þakka. Þeir hjálpuðu mér mikið þegar ég kom frá Danmörku og í Lengjudeildina. Ég hjálpaði þeim að koma Vestra upp í Bestu deildina. Nú tók ég skrefið í besta liðið á Íslandi.“
Vissi að hann færi til Reykjavíkur en ekki hvert
Velgengnin hér á landi setti mörg stórlið á eftir honum en á endanum urðu það Íslandsmeistarar Víkings sem klófestu Tarik og gerðu við hann tveggja ára samning.
„Að mínu áliti spila þeir bestu boltann á Íslandi. Nú eru þeir að berjast til sigurs í deildinni og úrslitum í bikarnum. Allt hljómar þetta svo vel og ég vil verða hluti af því verkefni.“
Síðustu dagar einkenndust af mikilli ringulreið og það bætti enn frekar ofan á ruglinginn að fyrsti leikur Tarik fyrir Víking, var gegn hans gamla liði Vestra, en hann báðum fótum á jörðinni og þakkar kærustunni fyrir góðan stuðning.
„Hún hjálpaði mér mikið og var fljót að pakka niður. Við höfðum pakkað niður að hluta nokkrum dögum áður því ég vissi tveimur dögum áður að ég færi til Reykjavíkur. Ég vissi samt ekki hvert en þegar samið hafði verið við Víking pökkuðum við restinni niður og settum í bílinn. Nú bý ég í bíl og hóteli.“